Innlent

Spá því að þrjá­tíu þúsund manns verði á at­vinnu­leysis­skrá um jólin

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Nadine Guðrún Yaghi skrifa
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, telur að um 25 til 30 þúsund manns verði á atvinnuleysisskrá um jólin.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, telur að um 25 til 30 þúsund manns verði á atvinnuleysisskrá um jólin. Vísir/Arnar

Nokkur hundruð manns var sagt upp störfum í dag eða fengu ekki endurráðningu hjá ferðaþjónustufyrirtækjum. Samtök ferðaþjónustunnar spá þrjátíu þúsund manns á atvinnuleysisskrá um jólin.

Sextíu og tveim af 133 starfsmönnum Fríhafnarinnar var sagt upp í hópuppsögn í morgun. Fríhöfnin er dótturfyrirtæki Isavia en Isavia sagði upp 133 starfsmönnum fyrir helgi sem flestir störfuðu við öryggisleit. Þá var sextíu og níu manns ótilgreinds ferðaþjónustufyrirtækis einnig sagt upp.

Hópuppsagnir segja þó ekki alla söguna þar sem mörg minni ferðaþjónustufyrirtæki hafa sagt upp fólki þessi mánaðarmót.

„Staðan er mjög alvarleg. ferðaþjónustufyrirtæki eru núna annað hvort að segja upp starfsfólki eða segja fólki að það geti ekki fengið endurráðningu sem hafði von um það að fá endurráðningu inn í haustið,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Bein afleiðing af breyttum reglum á landamærunum

Fyrirtækin höfðu þá endurráðið starfsfólk tímabundið í sumar þegar fór að birta til.

„Til dæmis ferðaskrifstofur sem eru að segja upp á milli tíu og tuttugu og upp í fjörutíu manns. Við vitum af fyrirtækjum sem eru ekki að endurráða á milli 30 og 50 manns þannig þetta er fljótt að hlaupa upp í nokkur hundruð manns sem við vitum að er verið að segja upp eða munu ekki hljóta endurráðningu sem þeir áttu von til,“ segir Jóhannes Þór.

Þetta sé bein afleiðing af breyttum reglum á landamærunum sem tók gildi 19. ágúst. Um þrjátíu starfsmenn Kynnisferða fengu leiðinlegar fréttir í dag.

Björn Ragnarsson, forstjóri Kynnisferða.Vísir/Vilhelm

„Við sögðum upp sex starfsmönnum og tímabundnum samningum sem við vorum búnir að ganga frá við um 25 starfsmenn þannig að við þurfum að segja öllum þessum samningum upp,“ segir Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða.

Styrkir myndu tryggja einhverjum starfsmönnum áframhaldandi vinnu

Nú sé búið að segja upp 90 % af starfsfólki fyrirtækisins.

„Það er ljóst að þessar aðgerðir sem tóku gildi 19. ágúst eru að hafa það mikil áhrif á ferðamenn að við munum ekki sjá þá koma til landsins á meðan þessar hömlur eru,“ segir hann.

Hlutabótaleiðina hafi hjálpað í vor en nú vildi hann frekar sjá styrki frá stjórnvöldum. Það myndi gera fyrirtækjum kleift að halda einhverjum starfsmönnum í vinnu - sem gætu til að mynda haldið viðskiptasamböndum.

„Til þess að vera tilbúin og vera til takist þegar ferðaþjónusta fer aftur af stað,“ segir Björn.

„Því miður held ég að við séum að fara inn í jólavertíðina með svona 25 til 30 þúsund manns á atvinnuleysisskrá,“ segir Jóhannes Þór.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×