Erlent

Segir Hvíta húsið vera í afneitun

Sylvía Hall skrifar
Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York.
Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York. AP/John Minchillo

Andrew Cuomo ríkisstjóri New York-ríkis er harðorður í garð embættismanna Hvíta hússins á Twitter í dag. Yfirvöld hafi ekki komið fram með ákveðna stefnu fyrir landið frá því að faraldurinn hófst og þjóðin líði fyrir það.

„Hvíta húsið hefur ekkert lært af COVID,“ skrifar Cuomo í færslu sem hann birti í dag. Hann telur nauðsynlegt að einhver taki að sér leiðtogahlutverk þegar slík ógn steðjar að heilsu þjóðarinnar en það hafi ekki verið raunin.

Hann segir enga línu hafa legið fyrir varðandi grímunotkun eða skimanir á landsvísu undanfarna sex mánuði. Þvert á móti hafi ráðamenn verið í afneitun varðandi alvarleika faraldursins.

„Ekki skima og ef við finnum ekki tilfellin – þá eru þau ekki til,“ skrifaði Cuomo og vísaði þar til orða Trump þar sem hann sagði umfangsmikla skimun greina of mörg tilfelli. Bandaríkin kæmu illa út þar sem smitum fjölgaði.

Cuomo segir ríkisstjórnina eina hafa kraftinn og völdin til þess að berjast gegn kórónuveirufaraldrinum í landinu. Henni sé að mistakast það.

Tæplega sex milljónir hafa greinst með kórónuveiruna sem veldur Covid-19 í Bandaríkjunum og hátt í 200 þúsund hafa látist. Staðan var einna verst í New York-ríki á tímabili, en alls hafa 438 þúsund greinst með veiruna þar og rúmlega 32 þúsund látist.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×