Erlent

Segir umfangsmikla skimun láta Bandaríkin líta illa út

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump í Tulsa á laugardaginn.
Donald Trump í Tulsa á laugardaginn. AP/Ian Maule

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur verið harðlega gagnrýndur um helgina eftir að hann sagðist hafa beðið embættismenn um að hægja á skimun fyrir Covid-19. Það hafi hann gert til að draga úr staðfestum fjölda smita í Bandaríkjunum til að láta ástandið líta betur út. Þetta sagði Trump á laugardaginn, sama dag og átta ríki Bandaríkjanna tilkynntu metfjölda nýsmitaðra.

Demókratar á þingi, heilbrigðisstarfsmenn og sérfræðingar hafa lýst yfir áhyggjum af ummælum forsetans og segja það til marks um að hann hafi meiri áhyggjur af því hvernig hann sjálfur lítur út en því að berjast gegn útbreiðslu nýju kórónuveirunnar.

Nánar tiltekið þá sagði Trump að skimun væri tvíeggja sverð. Með umfangsmikilli skimun, fjölgaði opinberum smitum.

„Svo ég sagði við fólkið mitt: Hægið á skimuninni,“ sagði Trump.

Hvíta húsið sagði í kjölfarið að Trump hafi eingöngu verið að grínast, sem talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa oft sagt eftir að Trump hefur látið umdeild ummæli falla.

Chad Wolf, starfandi heimavarnaráðherra Bandaríkjanna, segði í gær að hann hefði ekki heyrt Trump skipa neinu að hægja á skimun. Að ummælin væru til marks um pirring Trump gagnvart fjölmiðlum. Í stað þess að fjalla um það hve mikill árangur hefði náðst í skimun fyrir Covid-19, fjölluðu fjölmiðlar ekki um neitt annað en það hve margir væru smitaðir í Bandaríkjunum.

Samkvæmt tölum frá Johns Hopkins háskólanum, sem heldur utan um opinberar tölur, hafa tæplega 2,3 milljónir Bandaríkjamanna smitast og tæplega 120 þúsund dáið.

Trump sjálfur tísti þó um málið í nótt þar sem hann virtist standa á sínu. Umfangsmikil skimun væri ekki jákvæð því þá litu Bandaríkin svo illa út.

Heimildarmenn Washington Post innan Hvíta hússins segja Trump ekki hafa skipað að hægja ætti á skimun fyrir Covid-19. Ummælin hjálpi þó alls ekki. Á sama tíma og smituðum fjölgar víða í Bandaríkjunum sé Hvíta húsið að reyna að sannfæra Bandaríkin um að barátta ríkisstjórnarinnar sé að skila miklum árangri.

Mike Pence, varaforseti, hélt því til að mynda fram á dögunum að smituðum fækkaði hratt í Bandaríkjunum. Það er ekki rétt, þvert á móti. Smituðum fjölgar enn, þó dregið hafi úr þeirri fjölgun frá hápunkti faraldursins í Bandaríkjunum, og álag hefur aukist á sjúkrahúsum.

Í grein sem hann skrifaði á vef Wall Street Journal í síðustu viku, sagði Pence að fjölmiðlar væru að reyna að ala á ótta Bandaríkjamanna og önnur bylgja faraldursins væri ekki að ganga yfir landið.

Það er að vissu leyti rétt hjá Pence. Sérfræðingar eru sammála því að önnur bylgja smita sé ekki að ganga yfir Bandaríkin. Landið sé enn að eiga við fyrstu bylgjuna.

„Þegar þú hefur rúmlega tuttugu þúsund smit á degi hverjum, hvernig getur þú þá talað um aðra bylgju?" sagði Anthony Fauci. yfirmaður smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna, um ummæli Pence. „Við erum í fyrstu bylgjunni. Komum okkur úr henni áður en við förum að tala um aðra bylgju.“


Tengdar fréttir

Fyrsti fjöldafundur Trump síðan að faraldurinn hófst

Fyrsti fjöldafundur Donald Trump frá því í mars er hafinn í borginni Tulsa í Oklahoma. Heilbrigðisyfirvöld í Oklahomaríki hafa lýst yfir áhyggjum sínum af því að fundurinn væri haldinn þar sem að tilfellum kórónuveirunnar fjölgar enn hratt í ríkinu.

Trump-liðar reyna að endurskrifa söguna

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og bandamenn hans á Fox og víðar vinna nú hörðum höndum að því að endurskrifa söguna og halda því fram að þeir hafi ávallt tekið Covid-19 heimsfaraldrinum alvarlega.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×