Íslenski boltinn

Nik Chamberlain: Við eigum bestu stuðningsmennina í þessari deild

Ísak Hallmundarson skrifar
Nik Chamberlain, þjálfari meistaraflokks Þróttar.
Nik Chamberlain, þjálfari meistaraflokks Þróttar. Mynd/Þróttur

Nik Anthony Chamberlain þjálfari Þróttar var mjög ánægður eftir sigur hjá sínum stelpum á Fylki á Eimskipsvellinum í Laugardalnum í dag.

„Þetta var frábært. Þetta var algjörlega það sem stelpurnar áttu skilið í dag. Sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem við yfirspiluðum þær á öllum stöðum vallarins. Svo vörðumst við vel það sem eftir lifði leiks og fengum kannski smá heppni með okkur í lið líka eins og þegar við björguðum á marklínu ásamt nokkrum öðrum atvikum. En stelpurnar mínar áttu þetta fyllilega skilið í dag eftir það sem við erum búnar að leggja á okkur bæði í leikinn í dag og undanfarnar vikur,“ sagði Nik glaður í bragði í leikslok.

Þessi leikur og þessi þrjú stig eru Þrótturum afar mikilvæg. Þau gefa nýliðunum von um að liðið geti haldið sér áfram í deildi þeirra bestu. „Ef við höldum áfram að spila eins og við spiluðum í dag þá eigum við góðan möguleika á að halda okkur í deildinni. Við eigum 5 heimaleiki eftir og ef við getum sýnt sama viljann og sjálfstraustið í þessum næstu leikjum og við gerðum í dag þá eigum við mjög góðan möguleika,“ sagði Nik aðspurður um möguleika Þróttar að forðast fall úr deildinni.

Í gærkvöldi tilkynntu yfirvöld að áhorfendum yrði aftur hleypt á íþróttaviðburði með ákveðnum takmörkunum. 90 áhorfendur mættu á Eimskipsvöllinn í dag og heimaliðið fékk mikinn stuðning úr stúkunni. Nik var spurður hvort það hafi skipt einhverju máli í dag.

„Ég held það. Ég sagði fyrir leikinn að við eigum bestu stuðningsmennina í þessari deild. Stuðningsmennirnir okkar styðja stelpurnar stanslaust áfram og það hjálpar klárlega að hafa þá sem okkar tólfta leikmann,“ sagði Nik Chamberlain að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×