Innlent

Hótel og gistiheimili keppast um að bjóða nemendum gistingu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Þorsteinn Steingrímsson, hostelrekandi B47.
Þorsteinn Steingrímsson, hostelrekandi B47. Vísir/Arnar

Hótel og gistiheimili virðast farin að keppast um að bjóða háskólastúdentum upp á að leigja hjá sér herbergi í haust. Hótel Saga, Kex Hostel og B47 eru á meðal þeirra sem leita á náðir nemenda í þeim tilgangi að reyna að tryggja framtíðarrekstur sinn.

Fyrirtæki sem hingað til hafa reitt sig á ferðamenn róa nú lífróður. Mörg hver hafa þurft að skella í lás á meðan önnur láta reyna á aðrar lausnir sérsniðnar Íslendingum. Þannig er hið vinsæla Kex Hostel við Skúlagötu í Reykjavík að vinna að því að opna dyr sínar fyrir háskólastúdentum, þar sem sanngjörn leiga verður ákvörðuð í samráði við Landssamband stúdenta. Hótel Saga býður nemendum og kennurum sömuleiðis að leigja herbergi fyrir um 150 þúsund krónur á mánuði.

Hostelið B47, sem er staðsett í gamla húsnæði landlæknis við Barónsstíg, hefur fetað sömu slóðir en þar stendur til að skapa heimavistarstemningu að erlendri fyrirmynd.

„Hérna hef ég hug á að búa til svona kommúnu stúdenta og annars staðar í húsinu er síðan það sem ég kalla Barónsakademíuna. Þar leigi ég út gistiheimili til alls konar fræðimanna og slíkra sem geta þá aðstoðað stúdentana ef þeir leita eftir því,“ segir Þorsteinn Steingrímsson, hostelrekandi B47.

Aðspurður segir hann leiguverð misjafnt eftir herbergjum. „Þetta er svona frá sjötíu þúsund krónum og upp. Einstaklingsherbergi, vel útbúið, er á svona 110 til 120 þúsund krónur.“

Þorsteinn segir viðtökurnar hafa verið góðar og bindur vonir við að sjá fullt hús nemenda í haust.

„Þetta er svona eins og stórt heimili. Það er svona þessi heimilisstemning sem ég held að krakkarnir muni sækja í, af því að þeir geta ekki farið í bæinn á pöbbana og slíkt,“ segir Þorsteinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×