Erlent

„Það er eins og eitt þúsund skýstrókar hafi farið hér í gegn“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Allt á rúi og stúi.
Allt á rúi og stúi. AP Photo/Eric Gay

Minnst sex eru látnir og gríðarlegt eignatjón hefir orðið í Louisiana-ríki Bandaríkjanna eftir að fellibylurinn Lára, einn sá kraftmesti sem skollið hefur á ströndum Bandaríkjanna, reið þar yfir. Ríkisstjórinn segir eyðilegginguna mikla, en þó minni en talið var líklegt að gæti orðið.

Fellibylurinn mældist fjórir að styrk, en fellibylir eru mældir á skalanum einn til fimm. Mesti vindstyrkur mældist 67 metrar á sekúndu en John Bel Edwards, ríkisstjóri Louisiana sagði ljóst að Lára væri aflmesti fellibylur sem skollið hafi á ríkinu, aflmeiri en fellibylurinn Katrína sem olli miklu tjóni í ríkinu árið 2005.

Láru fylgdi gífurlegur vindur, rigning og sjávarflóð og var hundruðum þúsunda gert að flýja heimili sín.

Felibylurinn gekk á land við Lake Charles, bæ þar sem um 80 þúsund manns búa. Þar mátti sjá að hús voru að hruni kominn eftir að hafa þurft að þola aflið sem bjó í Láru.

Alls voru 875 þúsund manns án rafmagns vegna Láru en Edwards segir þó að svo virðist sem að betur hafi farið en menn þorðu að vona.

„Það liggur fyrir að við urðum ekki fyrir þeim miklum hamförum sem við töldum líklegt að gæti orðið,“ sagði Edwards. „Það er þó ljóst að við höfum mátt þola mikla eyðileggingu.“

Lake Charles varð illa úti en í frétt AP segir að lögreglumenn hafi séð heilt spilavíti fljóta niður á, og flugvélar hafi verið á hvolfi við flugvöll bæjarins.

„Það er eins og eitt þúsund skýstrókar hafi farið hér í gegn. Það er bara eyðilegging úti um allt,“ hefur AP eftir Brett Geymann, sem býr í grennd við Lake Charles.

Það tók alls ellefu tíma þangað til Lára gekk á land og fellibyllurinn hafði misst vindstyrk til þess að geta ekki talist fellibylur lengur.

Minnst sex létust af völdum Láru, þar á meðal 14 ára gömul stúlka og 68 ára gamall maður sem létust þegar tré féllu á heimili þeirra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×