Íslenski boltinn

Fyrsta liðið í sex ár sem tapar ekki í fyrstu tíu leikjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hilmar Árni Halldórsson og Þorsteinn Már Ragnarsson fagna saman marki Stjörnunnar.
Hilmar Árni Halldórsson og Þorsteinn Már Ragnarsson fagna saman marki Stjörnunnar. Vísir/Bára

Stjörnumenn gerðu kannski fjórða jafntefli í síðustu fimm leikjum í gærkvöldi en Garðabæjarliðið er enn taplaust í Pepsi Max deild karla.

Stjörnuliðið lék í gær sinn tíunda leik á tímabilinu í Pepsi Max deildinni og liðið er enn taplaust.

Stjarnan gerði þá 1-1 jafntefli á heimavelli á móti KA en þetta er fjórða 1-1 jafntefli Stjörnumanna í síðustu fimm leikjum. Stjarnan gerði líka 1-1 jafntefli við Víking, Gróttu og Fylki en vann FH 2-1 í fimmta leiknum sem stefndi líka í 1-1 jafntefli þar til að Halldór Orri Björnsson skoraði sigurmarkið með síðustu snertingu leiksins.

Þetta er í fyrsta sinn síðan sumarið 2014, þar sem lið tapar ekki í fyrstu tíu leikjunum sínum í Pepsi Max deildinni.

Sumarið 2014 fór Stjörnuliðið einmitt taplaust í gegnum allt tímabilið og vann sinn fyrsta og eina Íslandsmeistaratitil. FH-ingar töpuðu heldur ekki fyrr en í lokaleiknum á móti Stjörnunni.

Þetta er líka í fjórða sinn á þessum sjö síðustu tímabilum þar sem Stjarnan er síðasta liðið í deildinni til að tapa leik.

Síðasta taplausa liðið í Pepsi Max deildinni undanfarin ár:

  • 2020 Stjarnan 10 leikir (enn í gangi)
  • 2019 ÍA (Tapaði í sjöunda leik)
  • 2018 Breiðablik (Tapaði í sjötta leik)
  • 2017 Stjarnan (Tapaði í sjötta leik)
  • 2016 Stjarnan (Tapaði í sjötta leik)
  • 2015 Breiðablik (Tapaði í tíunda leik)
  • 2014 Stjarnan (Taplaust)
  • 2013 KR (Tapaði í tíunda leik)
  • 2012 ÍA (Tapaði í sjöunda leik)
  • 2011 KR (Tapaði í sautjánda leik)
  • 2010 Fram (Tapaði í sjötta leik)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×