Íslenski boltinn

Knattspyrnukona í sóttkví í fjórða sinn: Passa sig að festast ekki á sófanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ingunn Haraldsdóttir í leik með KR-liðinu. Hún er fyrirliði liðsins.
Ingunn Haraldsdóttir í leik með KR-liðinu. Hún er fyrirliði liðsins. Vísir/Vilhelm

Fyrirliði kvennaliðs KR-inga í knattspyrnu er komin í sóttkví í fjórða sinn í ár en ekkert verður að leik Fylkis og KR í kvöld þar sem KR-liðið eru komið í sóttkví í þriðja sinn á tímabilinu.

Ingunn Haraldsdóttir, fyrirliði KR, hefur ekki aðeins farið þrisvar sinnum í sóttkví í sumar með félögum sínum í KR-liðinu heldur þurfti hún einnig að fara einu sinni til viðbótar.

„Maður veit ekki alveg hvort maður eigi að hlæja eða gráta," sagði Ingunn Haraldsdóttir við Mist Rúnarsdóttur í hlaðvarpsþættinum Heimavellinum.

Ingunn er á því að sóttkvíin geti samt þjappað KR-liðinu saman sem lið því þær eru náttúrulega allar að glíma við það saman. Það breytir ekki því að þetta reynir á andlegu hlið liðsins.

Það hjálpar örugglega ekki heldur til að KR-liðið situr í fallsæti í Pepsi Max deildinni og því vilja KR-konur komast sem fyrst út á völl til að breyta því. KR hefur fengið sjö stig eins og Þróttur en er með lakari markatölu.

KR konur losnuðu reyndar úr sóttkví fyrir rúmri viku síðan og þær náðu að spila einn leik gegn Val áður en liðið þurfti að fara aftur í sóttkví. Ingunn segir í viðtalinu að leikmenn KR hafi frétt í gegnum fjölmiðla að liðið væri að fara í sóttkví aftur.

Það góða við að er að hafa oft áður í sóttkví er að Ingunn Haraldsdóttir veit nákvæmlega hvað hún er að fara út í.

„Það þarf að passa sig að festast ekki á sófanum, það er númer eitt, tvö og þrjú. Maður getur farið í göngutúra og tek alltaf æfingar. Maður verður að halda sér í ágætis rútínu, vera ekki að sofa til hádegis. Ég hef líka núna skólann og það er ágætt," sagði Ingunn Haraldsdóttir við Mist Rúnarsdóttur í hlaðvarpsþættinum Heimavellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×