Enski boltinn

Gylfi Þór segir Ancelotti ánægðan og það eitt skipti máli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gylfi Þór segir að skoðun Ancelotti sé sú eina sem skipti máli.
Gylfi Þór segir að skoðun Ancelotti sé sú eina sem skipti máli. Tony McArdle/Getty Images

Landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson hefur svarað gagnrýnisröddum varðandi frammistöður sínar og sagt að skoðun Carlo Ancelotti, þjálfara Everton, sé sú eina sem skipti máli.

Undirbúningstímabil enska knattspyrnuliðsins Everton hófst í gær með 3-3 jafntefli gegn fyrrum úrvalsdeildarliðinu Blackpool. Everton voru 3-0 undir eftir aðeins ellefu mínútna leik en Gylfi Þór Sigurðsson skoraði tvívegis og lagði upp eitt er lærisveinar Ancelotti sluppu við neyðarlegt tap í fyrsta leik.

Gylfi Þór mætti í viðtal eftir leik og ræddi þá gagnrýni sem hann hefur fengið síðan Ítalinn tók við af Marco Silva. Þá hafa margir kallað eftir því að Gylfi verði seldur.

„Stjórinn [Ancelotti] hefur verið ánægður með mig, enda augljóslega að spila allt annað hlutverk en áður,“ sagði Gylfi og sendi svo pillu á gagnrýnendur sína.

„Ég fylgist ekki með fréttunum. Ef hann er ánægður þá hlýt ég að vera gera eitthvað rétt. Ef hann er ekki ánægður með mig þá verð ég bara að leggja mig enn meira fram, æfa meira og gera það sem hann vill, það er ekki flóknara en það.“

Landsliðsmaðurinn skoraði stórglæsilegt mark beint úr aukaspyrnu í leik gærdagsins sem má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×