Erlent

Suður-Kórea á „barmi landlægs faraldurs“

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá skimun fyrir Covid-19 í Seoul.
Frá skimun fyrir Covid-19 í Seoul. AP/Ahn Young Joon

Yfirvöld í Suður-Kóreu tilkynntu í morgun mestu fjölgun nýsmitaðra þar í landi frá því í mars. Sóttvarnaaðgerðir voru framlengdar og mögulega stendur til að herða þær. Meðal þess sem hefur verið gert er að banna trúarsamkomur innandyra, loka skemmtistöðum, veitingastöðum og netkaffihúsum.

Ef aðgerðir verða hertar, verður fyrirtækjum og skólum einnig lokað. Samkomubann mun þá miða við tíu einstaklinga.

Smituðum fjölgaði um 332 á milli daga en fjölgunin hefur ekki verið hærri frá 8. mars, þegar 367 greindust á milli daga. Undanfarna níu daga hefur smituðum fjölgað um 2.232. Heilt yfir hafa 17.399 smitast í landinu og 309 hafa dáið.

Það vekur þó athygli að ekki er búið að rekja stóran hluta nýrra smita og útbreiðslan á sér stað um allt landið.

Skólum verður lokað á svæðum þar sem klasar smitaðra hafa greinst og er búið að setja takmark á fjölda barna sem mega vera í skólum og leikskólum um landið allt. Öllum ströndum landsins verður lokað.

Yonhap fréttaveitan segir heilbrigðisyfirvöld Suður-Kóreu hafa rakið stóran hluta nýrra smita til kirkju í Seoul og mótmæla gegn aðgerðum yfirvalda um síðustu helgi. Fólk alls staðar af landinu hafi komið til höfuðborgarinnar vegna þeirra mótmæla og virðist sem að umfang útbreiðslunnar nú megi að einhverju leyti rekja til þess.

„Við stöndum á barmi landlægs faraldurs þar sem nýsmituðum fjölgar í öllum 17 héröðum landsins,“ sagði Jung Eun-Kyeong, yfirmaður Sóttvarnastofnunar Suður-Kóreu í morgun, samkvæmt frétt Reuters.

„Haldið ykkur heima eins og þið getið og farið eingöngu út úr húsi fyrir nauðsynjar, vinnu eða læknisheimsókna.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×