Innlent

Biðla til deilu­aðila að af­stýra öllum verk­föllum vegna veirunnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá upplýsingafundi almannavarna. Alma Möller landlæknir og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sitja fyrir miðju.
Frá upplýsingafundi almannavarna. Alma Möller landlæknir og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sitja fyrir miðju. Vísir/vilhelm

Sóttvarnalæknir, landlæknir og ríkislögreglustjóri hafa lýst yfir áhyggjum vegna verkfalla, sem standa nú yfir og eru einnig yfirvofandi. Biðlað er til hlutaðeigandi aðila að afstýra verkföllunum vegna faraldurs kórónuveirunnar. Þetta hefur Morgunblaðið upp úr minnisblaði sem áðurnefnd embætti skrifuðu undir.

Þjónusta fjölda opinberra stofnana, þar af margra innan heilbrigðiskerfisins, mun skerðast verulega með verkfallsaðgerðum BSRB sem boðað hefur verið til í næstu viku. Þá hefur verkfall félagsmanna Eflingar sem starfa hjá borginni einnig haft veruleg áhrif á sambærilega þjónustu en þó hafa verið veittar undanþágur frá verkfallsaðgerðum á velferðarsviði Reykjavíkurborgar vegna kórónuveirunnar.

Hættustig almannavarna er nú í gildi á landinu vegna veirunnar. 26 smit hafa greinst hér, sem öll má rekja til utanlandsferða.

Í minnisblaðinu sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Alma Möller landlæknir og Kjartan Þorkelsson settur ríkislögreglustjóri skrifa undir segir m.a. að þegar unnið sé eftir viðbragðsáætlun sóttvarnalæknis og almannavarna til að koma í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar sé „hver einasti hlekkur í keðjunni mikilvægur“.

Ríkir almannahagsmunir standi til þess að störf á heilbrigðisstofnunum, hjúkrunarheimilum, hjá viðbragðsaðilum og öðrum stofnunum verði með sem eðlilegustum hætti. Því sé biðlað til hlutaðeigandi aðila að afstýra yfirstandandi og fyrirhuguðum verkföllum.

Þegar hafa forstöðumenn í heilbrigðisgeiranum lýst yfir áhyggjum af verkfallsaðgerðunum. Forstjóri heilsugæslunnar og framkvæmdastjóri Landspítalans telja yfirvofandi verkföll BSRB hættuleg ofan í kórónuveirufaraldur.


Tengdar fréttir

Öllum verða tryggð laun í sótt­kví

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld muni tryggja að allir sem þurfi að fara í sóttkví haldi launum sínum. Gengið verði frá útfærslu á framkvæmdinni í dag eða á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×