Erlent

Andrési snúist hugur og mun ekki aðstoða við Epstein-rannsóknina

Andri Eysteinsson skrifar
Andrés prins er þriðja barn Elísabetar Englandsdrottningar og Filippusar prins.
Andrés prins er þriðja barn Elísabetar Englandsdrottningar og Filippusar prins. vísir/getty

Andrés Bretaprins hefur algjörlega þvertekið fyrir það að veita bandarískum saksóknurum hjálp við rannsóknina á brotum auðkýfingsins Jeffrey Epstein.



Andrés prins var á meðal vina Epstein en prinsinn hefur verið sakaður um kynferðisbrot í tengslum við mál Epsteins, sem lést í varðhaldi í New York 10. ágúst síðastliðinn. Andrés hefur hafnað öllum ásökunum gegn sér en hefur dregið sig úr sviðsljósinu og frá störfum sínum innan bresku konungsfjölskyldunnar vegna málsins.



Í nóvember síðastliðnum lýsti Andrés sig reiðubúinn til að aðstoða yfirvöld við rannsóknina ef þess yrði krafist. Saksóknarinn Geoffrey Berman sagði prinsinn hins vegar hafa breytt afstöðu sinni síðan þá.

„Þrátt fyrir mjög svo opinbert tilboð Andrésar prins um að aðstoða við rannsókn á máli Jeffrey Epstein hefur prinsinn algjörlega hafnað því að bjóða fram aðstoð sína,“ sagði Berman.



Breska konungsfjölskyldan vildi ekki tjá sig þegar Guardian leitaði viðbragða og benti á lögfræðiteymi prinsins. Talið er að í lögfræðiteymi Andrésar sé að finna fyrrum lögfræðing einræðisherrans Augusto Pinochet, Clare Montgomery.



Prinsinn hefur verið sakaður um að hafa brotið gegn Virginiu Guiffre en Guardian hefur sýnt fram á að prinsinn hafi verið á meðal farþega um borð í flugvél Epstein á leið til Bandarísku jómfrúareyja árið 1999, þar er Epstein sagður hafa haldið stúlkum undir lögaldri gegn vilja þeirra.


Tengdar fréttir

Níddist á brotnum stúlkum

Fjármálamaðurinn Jeffrey Epstein braut kynferðislega á fjölda unglingsstúlkna um árabil; hélt kynlífsveislur og bauð voldugum vinum og frægum. Vinir hans, auðkýfingar og stjórnmálamenn, keppast nú við að sverja hann af sér.

Andrés prins hættir opinberum störfum

Elísabet II Bretlandsdrottning hefur samþykkt ósk Andrésar prins um að hann hætti að sinna skyldum sínum fyrir konungsfjölskylduna um ófyrirsjáanlega framtíð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×