Erlent

Ánægður með stuðning hættulegra samsæringa

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Evan Vucci

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lýsti yfir ánægju með hreyfingu sem kallast Qanon, sem byggir á innihaldslausum samsæriskenningum og Alríkislögregla Bandaríkjanna segir að ógn stafi af. Það gerði forsetinn vegna þess að það fólk sem aðhyllist Qanon „líkar vel við mig,“ eins og hann orðaði það á blaðamannafundi í gær.

Í stuttu máli sagt, þá snýst þessi hreyfing um það að Trump sé að há leynilega baráttu gegn neti djöfladýrkandi barnaníðinga sem stjórna heiminum á bakvið tjöldin og neyta blóðs barna til að halda sér ungir. Þar að auki fylgja hreyfingunni aðrar innihaldslausar samsæriskenningar um skotárásir, bóluefni, að bylgjur frá 5G sendum valdi Covid-19 og ýmislegt annað.

Stuðningsmenn hreyfingarinnar hafa framið ofbeldi í Bandaríkjunum.

Hreyfingin hefur verið að auka umsvif sín í Bandaríkjunum og til að mynda eru þó nokkrir stuðningsmenn hennar að bjóða sig fram til þings. Af þeim er Marjorie Taylor Greene líklegast sú eina sem mun ná á þing en hún vann nýverið forval Repúblikanaflokksins í kjördæmi sínu í Georgíu.

Hún hefur ítrekað lýst stuðningi sínum við Qanon auk þess sem hún hefur einnig ítrekað send frá sér rasískar færslur á samfélagsmiðlum. Trump lýsti henni á Twitter sem rísandi stjörnu Repúblikanaflokksins.

Trump var spurður út í hreyfinguna á blaðamannafundi í gær þar sagðist hann ekki vita mikið um hana, annað en það að meðlimum hennar væri vel við hann. Það kynni hann að meta.

Hann sagðist einnig hafa heyrt af auknum vinsældum Qanon og sagði að fólk þetta elskaði Bandaríkin. Hann væri að berjast gegn því að vinstri sinnuð öfl rústuðu Bandaríkjunum og í kjölfarið heiminum öllum.

Þegar blaðamaður kynnti helstu áherslur Qanon fyrir Trump sagði hann: „Á það að vera gott eða slæmt?“

Starfsmenn Facebook fjarlægðu nýverið 790 hópa af samfélagsmiðlinum sem snúa að Qanon. Einnig var gripið til aðgerða gegn fjölmörgum síðum og aðilum á Facebook og Instagram.

Til sambærilegra aðgerða hefur verið gripið á Youtube, Twitter, Reddit og öðrum miðlum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×