Íslenski boltinn

Þorsteinn Halldórsson: Aldrei auðvelt

Ísak Hallmundarson skrifar
Þorsteinn Halldórsson er þjálfari Breiðabliks.
Þorsteinn Halldórsson er þjálfari Breiðabliks. vísir/bára

Breiðablik styrkti stöðu sína á toppi Pepsi Max deildar kvenna þegar liðið gjörsigraði Þór/KA, 7-0, í kvöld. Blikar eru með fullt hús stiga og hafa ekki fengið á sig mark eftir fyrstu níu leikina í mótinu.

„Það er gaman að vinna og skora mikið af mörkum en þetta er aldrei auðvelt. Þessir leikir eru ekkert þannig auðveldir. Við leggjum rosalega orku í þá og byrjum af svakalegum krafti. Ég hugsa að ákefðin í byrjun hafi sett þær svolítið út af laginu og það var mikill kraftur í okkur frá fyrstu mínútu,“ sagði Þorsteinn Halldórsson þjálfari Breiðabliks í viðtali eftir leik.

Breiðablik er með fullt hús stiga og hefur valtað yfir andstæðinga sína í sumar. Þorsteinn segir mikilvægt að núllstilla sig fyrir hvern leik.

„Ef þú ert sigurvegari og ætlar þér hluti þarftu að gera þér grein fyrir því að þú þarft að núllstilla á milli leikja og undirbúa alla leiki eins, alltaf minna þig á hversu mikið þú þarft að hafa fyrir þessu. Mér finnst við hafa gert það vel undanfarið að ná að njóta sigranna en samt verið klár þegar næsta verkefni kemur.“

Breiðabliksliðið bætti í kvöld met yfir flesta leiki í byrjun móts án þess að fá á sig mark.

„Varnarleikurinn hefur verið frábær hjá öllu liðinu og varnarlínan verið mjög sterk og Sonný frábær í markinu,“ sagði Þorsteinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×