Erlent

Harry og Meg­han sögð reið konungs­höllinni vegna deilna um vöru­merkið Sus­sex­Royal

Atli Ísleifsson skrifar
Ljóst má vera að mikil spenna sé í samskiptum Harry og Meghan og svo konungsfjölskyldunnar eftir að tilkynning þessa efnis birtist á vef Harry og Meghan.
Ljóst má vera að mikil spenna sé í samskiptum Harry og Meghan og svo konungsfjölskyldunnar eftir að tilkynning þessa efnis birtist á vef Harry og Meghan. EPA

Harry Bretaprins og Meghan Markle, hertogi og hertogaynja af Sussex, segja bresku konungsfjölskylduna ekki hafa neina lögsögu yfir notkun á orðinu „royal“ (í. konunglegur) á erlendri grundu.

Ljóst má vera að mikil spenna sé í samskiptum Harry og Meghan og svo konungsfjölskyldunnar eftir að tilkynning þessa efnis birtist á vef Harry og Meghan. Kemur hún í kjölfar frétta um að þau Harry og Meghan myndu hætta að notast við vörumerkið „SussexRoyal“ á vordögum.

Sagt var frá því fyrir helgi að hjónin hafi samþykkt að orðið „royal“ yrði ekki notað og að umsóknir um skráningu vörumerkis á „SussexRoyal“ hafi einnig verið dregnar til baka. Þau Harry og Meghan hafa notast við „SussexRoyal“ á Instagram-reikningi sínum og á vefsíðu sinni.

Guardian segir frá því að færslur á opinberri heimasíðu þeirra Harry og Meghan bendi til að þau séu ósátt með framkomu bresku hirðarinnar í garð þeirra og telji sig sæta mismunun.

Harry og Meghan greindu frá því í janúar að þau hygðust hverfa úr framlínu bresku konungsfjölskyldunnar, verja auknum tíma í Norður-Ameríku og verða fjárhagslega sjálfstæð.

„Breska konungsveldið eða ríkisstjórnin hefur enga lögsögu yfir orðinu „konunglegur“ (e. royal) á erlendri grundu,“ sagði í færslunni á heimasíðu Harry og Meghan.

Talsmaður hjónanna sagði frá því í gær að þau væru staðráðin í að koma á fót nýrri góðgerðarstofnun sinni í vor. Þó megi ljóst vera að hún muni ekki bera nafnið Sussex Royal Foundation líkt og fyrst var talið.

Parið mun hætta að sinna konungslegum skyldum sínum síðasta dag marsmánaðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×