Erlent

Akfeit ugla send í megrun

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Uglan bústna.
Uglan bústna. Mynd/Uglusetur Suffolk.

Það getur verið erfitt að standast freistingar og svo virðist sem það eigi ekki síður við uglur en menn ef marka má nýlegt dæmi frá Bretlandi. Þar fannst ugla í skurði sem átti erfitt með að hefja sig á loft.

Þeir sem fundu ugluna töldu hana vera slasaða en uglan var blaut og hrakin. Var henni í snarhasti komið til uglusetursins í Suffolk í austurhluta Englands. Eftir búið var að hlúa að uglunni, þurrka hana og hugsa vel um kom í ljós að henni gekk afar illa að fljúga. Því næst var athugað hvort uglan hafi verið gæludýr en svo reyndist ekki vera, í það minnsta fúlsaði hún við þekktum fuglamat sem gæludýrum í fljúgandi formi er jafnan gefið.

„Við rannsökuðum hana í bak og fyrir og komumst að því að það var ekkert að henni nema það að hún var alveg í einstakri yfirvigt. Hín var mjög, mjög bústin og blaut,“ sagði Rufus Samkin í samtali við CNN sem fjallaði um raunir hinnar akfeitu uglu.

Sagði hann að þekkt væri að uglur ættu erfitt með að fljúga væru þær of blautar en að þessi tiltekna hafi ekki getað flogið, óháð því hvort hún væri blaut eða þurr.

„Hún var þriðjungi þyngri en hin venjulega ugla sem kemur hingað, þannig að hún var umtalsvert stærri,“ að sögn Samkin sem bætti við að mikil fita hafði safnast saman á kvið uglunnar og á læri hennar.

En hvað var það sem olli því að uglan var svona bústin?

„Þegar við könnuðum málið nánar þá kom í ljós að þar sem hún fannst var allt morandi í villtum músum. Þetta hefur verið gott ár fyrir ránfugla og þannig að ég tel að að hún hafi bara einfaldlega látið of mikið eftir sér, orðið mjög feit þannig að hún festist í skurðinumi og gat ekki flogið,“ sagði Samkin.

Allt er þó gott sem endar vel. Uglan var sett á tveggja vikna megrunarkúr áður en að henni var sleppt á nýjan leik.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.