Erlent

Tveir til viðbótar smitaðir á hótelinu á Tenerife

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá hótelinu í gærmorgun. Lögregla gætti innganga og passaði að enginn færi inn eða út.
Frá hótelinu í gærmorgun. Lögregla gætti innganga og passaði að enginn færi inn eða út. Vísir/lóa pind

Tvö kórónuveirusmit til viðbótar hafa verið staðfest meðal gesta á Costa Adeje Palace-hótelinu á Tenerife. Áður höfðu ítölsk hjón sem dvöldu á hótelinu greinst með veiruna og hótelið í kjölfarið sett í sóttkví. Sjö Íslendingar eru á meðal þeirra þúsund gesta sem eru í sóttkvínni.

Spænska dagblaðið El Pais greinir frá nýju smitunum tveimur í dag. Þau smituðu eru sögð Ítalir sem voru á ferðalagi með ítalska lækninum og konu hans sem fyrst voru greind með veiruna. Í frétt El Pais segir að allt fólkið sé nú í einangrun á spítala.

Læknirinn er sagður vera frá Langbarðalandi, héraði á Norður-Ítalíu þar sem veiran hefur náð talsverðri útbreiðslu á stuttum tíma. Hann gaf sig fram á spítala eftir að hann fór að finna fyrir einkennum veirunnar og hafði verið um viku á Tenerife. Í gær var svo staðfest að kona hans væri einnig með veiruna.

Íslendingarnir sem eru í sóttkví á Costa Adeje Palace-hótelinu eru þar í fríi á vegum ferðaskrifstofunnar Vida. Um 800 gestir og 200 starfsmenn hótelsins eru nú í a.m.k. tveggja vikna sóttkví á hótelinu. Íslendingar á Tenerife hafa lýst miklum viðbúnaði við hótelið en lögregla hefur staðið vörð um það og meinað öllum inn- og útgöngu.

Alls hafa níu tilfelli kórónuveiru greinst á Spáni. Seint í gærkvöldi greindist fyrsta tilfelli veirunnar í höfuðborginni Madríd. Öll ný smit kór­ónu­veirunn­ar í Evr­ópu und­an­farna daga er hægt að rekja til Ítal­íu. Í gær var greint frá því að kór­ónu­veir­an væri kom­in til Aust­ur­rík­is, Króa­tíu og Sviss.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.