Erlent

Tveir til viðbótar smitaðir á hótelinu á Tenerife

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá hótelinu í gærmorgun. Lögregla gætti innganga og passaði að enginn færi inn eða út.
Frá hótelinu í gærmorgun. Lögregla gætti innganga og passaði að enginn færi inn eða út. Vísir/lóa pind

Tvö kórónuveirusmit til viðbótar hafa verið staðfest meðal gesta á Costa Adeje Palace-hótelinu á Tenerife. Áður höfðu ítölsk hjón sem dvöldu á hótelinu greinst með veiruna og hótelið í kjölfarið sett í sóttkví. Sjö Íslendingar eru á meðal þeirra þúsund gesta sem eru í sóttkvínni.

Spænska dagblaðið El Pais greinir frá nýju smitunum tveimur í dag. Þau smituðu eru sögð Ítalir sem voru á ferðalagi með ítalska lækninum og konu hans sem fyrst voru greind með veiruna. Í frétt El Pais segir að allt fólkið sé nú í einangrun á spítala.

Læknirinn er sagður vera frá Langbarðalandi, héraði á Norður-Ítalíu þar sem veiran hefur náð talsverðri útbreiðslu á stuttum tíma. Hann gaf sig fram á spítala eftir að hann fór að finna fyrir einkennum veirunnar og hafði verið um viku á Tenerife. Í gær var svo staðfest að kona hans væri einnig með veiruna.

Íslendingarnir sem eru í sóttkví á Costa Adeje Palace-hótelinu eru þar í fríi á vegum ferðaskrifstofunnar Vida. Um 800 gestir og 200 starfsmenn hótelsins eru nú í a.m.k. tveggja vikna sóttkví á hótelinu. Íslendingar á Tenerife hafa lýst miklum viðbúnaði við hótelið en lögregla hefur staðið vörð um það og meinað öllum inn- og útgöngu.

Alls hafa níu tilfelli kórónuveiru greinst á Spáni. Seint í gærkvöldi greindist fyrsta tilfelli veirunnar í höfuðborginni Madríd. Öll ný smit kór­ónu­veirunn­ar í Evr­ópu und­an­farna daga er hægt að rekja til Ítal­íu. Í gær var greint frá því að kór­ónu­veir­an væri kom­in til Aust­ur­rík­is, Króa­tíu og Sviss.


Tengdar fréttir

„Gæti verið verri staður til að vera fastur á“

Sigvaldi Kaldalóns, fararstjóri á Tenerife, segir að líðan Íslendinganna sem séu í sóttkví sé góð og að fólk sé skilningsríkt. Unnið er að því að rannsaka alla gesti hótelsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×