Enski boltinn

Sol Campbell og Hermann vilja halda Patrik í sínum herbúðum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Patrik Sigurður í leik með U21 landsliði Íslands.
Patrik Sigurður í leik með U21 landsliði Íslands. Vísir/Vilhelm

Markvörðurinn Patrik Sigurður Gunnarsson verður áfram í herbúðum Southend United en þetta staðfesti Sol Campbell, þjálfari liðsins á blaðamannafundi nýverið. Hermann Hreiðarsson er aðstoðarmaður Sol hjá Southend.

Patrik Sigurður gekk til liðs við Southend United á svokölluðu neyðarláni þar sem markvörður liðsins meiddist og liðið var ekki með annan slíkan til reiðu. Nú er ljóst að Patrik mun allavega spila með Southend um næstu helgi er liðið mætir Oxford United.

Þó Patrik hafi fengið á sig þrjú mörk er liðið tapaði 3-2 gegn Burton Albion þá var Sol Campbell ánægður með frammistöðu íslenska markvarðarins.

„Patrik verður áfram í herbúðum okkar. Hann hefur staðið sig mjög vel og gat lítið gert við mörkunum sem hann fékk á sig gegn Burton. Hann hefur haft jákvæð áhrif á liðið til þessa.“

Patrik, sem hefur leikið fyrir öll yngri landslið Íslands, á því verðugt verkefni fyrir höndum en gengi Southend hefur verið skelfilegt á leiktíðinni. Liðið, sem er í miklum fjárhagsvandræðum, situr í 22. sæti ensku C-deildarinnar með aðeins 16 stig eftir 33 leiki. Á laugardaginn kemur mætir liðið Oxford sem situr í 8. sæti með 54 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×