Alonso bjargaði stigi fyrir Chelsea | Jóhann Berg frá vegna meiðsla

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alonso var hetja Chelsea í dag.
Alonso var hetja Chelsea í dag. vísir/getty

Marcos Alonso, vinstri bakvörður Chelsea, reyndist hetja liðsins er liðið náði aðeins 2-2 jafntefli gegn Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í dag. Þá vann West Ham United 3-1 sigur á Southampton á meðan Newcastle United og Burnley gerðu markalaust jafntefli. Jóhann Berg Guðmundsson lék ekki í dag en hann er frá vegna meiðsla.

Vinstri bakvörðurinn til bjargar

Alonso kom Chelsea yfir í fyrri hálfleik með viðstöðualausu skoti eftir að Olvier Giroud setti fyrirgjöf Reece James í slánna og út. Staðan því 1-0 í hálfleikum gestunum frá Lundúnum í vil. Heimamenn snéru taflinu hins vegar við snemma í síðari hálfleik.

Jefferson Lerma jafnaði metin með föstum skalla eftir hornspyrnu Ryan Fraser á 54. mínútu. Setja má spurningamerki við Willy Caballero í marki Chelsea en skallinn var frekar nálægt honum. Aðeins þremur mínútum síðar var staðan orðin 2-1 Bournemouth í vil.

Norðmaðurinn Joshua King, sem var orðaður við Manchester United í janúar, skoraði þá með skoti af stuttu færi eftir góða sókn. Gott uppspil Bournemouth kom Jack Stacey inn í vítateig, hann átti svo fyrirgjöf fyrir markið þar sem King gat ekki annað en skorað. 

Eftir þetta tóku Chelsea öll völd á vellinum og tókst varamanninum Michy Batshuayi að jafna metin en markið dæmt af vegna rangstöðu. Það var svo Alonso sem jafnaði metin með skalla á 85. mínútu eftir að Aaron Ramsdale, markvörður Bournemouth, hafði verið skot út í teiginn.

Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur á Vitality vellinum því 2-2. Chelsea heldur 4. sæti deildarinnar með 45 stig, fjórum stigum meira en Manchester United sem á leik á morgun. Bournemouth er á sama tíma í 17. sæti, aðeins tveimur stigum fyrir ofan fallsæti.

Fyrsti sigur West Ham síðan 2019

West Ham vann bráðnauðsynlegan sigur á Southampton í dag, 3-1. Þetta var fyrsti sigur West Ham í ensku úrvalsdeildinni á árinu 2020 og eru þeir nú komnir upp úr fallsæti.

Jarrod Bowen kom Hömrunum yfir á 15 mínútu leiksins en Michael Obafemi jafnaði fyrir Southampton á 31. mínútu. Sebastian Haller kom West Ham svo yfir á nýjan leik skömmu fyrir hálfleik.

Á 54. mínútu skoraði Michal Antonio svo þriðja mark Lundúnaliðsins og urðu lokatölur 3-1 fyrir West Ham, lífsnauðsynlegur sigur í fallbaráttunni. West Ham er eftir leikinn í 16. sætinu með 27 stig en Southampton í 13. sæti með 34 stig.

Markalaust án Jóa Berg

Newcastle fékk Burnley í heimsókn á St. James Park, en liðið hafði ekki skorað í síðustu þremur leikjum sínum í deildinni. Það sama var upp á teningnum í dag en leiknum lauk með markalausu jafntefli þar sem Newcastle var örlítið meira með boltann, en það hefur ekki gerst oft á þessu tímabili.

Newcastle er með 32 stig í 14. sæti en Burnley er að gera fína hluti í 9. sætinu með 38 stig. Jóhann Berg Guðmundsson var ekki með Burnley í dag vegna meiðsla á kálfa.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira