Það VAR dramatík á Goodison | Ótrúlegar lokamínútur á Goodison

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Calvert-Lewin hélt hann hefði tryggt Everton öll þrjú stigin í uppbótartíma.
Calvert-Lewin hélt hann hefði tryggt Everton öll þrjú stigin í uppbótartíma. vísir/getty

Lokamínútur leiks Everton og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni voru hreint út sagt ótrúlegar þar sem myndbandsdómgæsla kom mikið við sögu. Lokatölur 1-1 þar sem Gylfi Þór Sigurðsson var dæmdur rangstæður undir lok leiks. Enn á ný létu því leikmenn Manchester United tækifæri til þess að brúa bilið milli sín og toppliða deildarinnar renna sér úr greipum.

Fyrir leik voru stuðningsmenn Man United ekki bjartsýnir en liðið er enn án þeirra Paul Pogba og Marcus Rashford. Þá hefur verið mikið álag á leikmönnum undanfarið sem og Everton hefur átt góðu gengi að fagna síðan Marco Silva var látinn taka pokann sinn. Ekki bætti það úr skák að David De Gea gaf Everton einfaldlega mark á 3. mínútu leiksins þegar hann var of lengi að spyrna frá marki sínu og endaði á að sparka knettinum í Dominic Calvert-Lewin og þaðan í netið.

Annað skiptið á leiktíðinni sem Lewin fer illa með spænska markvörðinn en enski framherjinn átti stóran þátt í marki Everton í 1-1 jafntefli liðanna á Old Trafford fyrr á leiktíðinni. Skömmu síðar bjargaði De Gea hins vegar gestunum þegar Lewin átti skot úr þröngu færi sem virtist vera á leið í fjærhornið.

Það var svo eftir rúmlega hálftíma leik sem Bruno Fernandes jafnaði metin með skoti af löngu færi sem Jordan Pickford, landsliðsmarkvörður Englands, átti að gera betur í marki heimamanna. Á undan hafði Nemanja Matic hótað því að jafna metin fyrir heimamenn með góðu skoti sem söng í þverslánni.

Í síðari hálfleik átti Gylfi Þór aukaspyrnu í stöngina áður en dramatíkin átti sér stað í uppbótartíma. Fyrst hélt Odion Ighalo að hann hefði tryggt gestunum sigurinn en Pickford náði á ótrúlegan hátt að fá knöttinn í fótinn. Everton hélt svo að þeir hefðu unnið leikinn með sjálfsmarki Harry Maguire eftir skot Calvert-Lewin sem breytti um stefnu en Gylfi Þór sat í rangstöðu eftir að hafa verið í dauðafæri sem De Gea varði.

Eftir að hafa farið yfir markið ákvað myndbandsdómari leiksins að dæma Gylfa rangstæðan þó svo að knötturinn hafi ekki farið í hann. Hann var vissulega í sjónlínu De Gea en segja má með sanni að Man Utd hafi sloppið með skrekkinn þarna. Skömmu síðar var leikurinn flautaður af og í kjölfarið hellti Carlo Ancelotti, þjálfari Everton, úr skálum reiði sinnar yfir dómara leiksins og hlaut fyrir það brottvísun. Verður hann því ekki á hliðarlínunni í næsta leik liðsins.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira