Erlent

Fer fram á að Britta Niel­sen hljóti átta ára dóm

Atli Ísleifsson skrifar
Britta Nielsen sagðist í vitnastúku hafa fallið í freistni og á sínum tíma reynt að lagfæra bága fjárhagsstöðu heimilisins þegar hún byrjaði að svíkja fé út úr Félagsmálastofnun Danmerkur.
Britta Nielsen sagðist í vitnastúku hafa fallið í freistni og á sínum tíma reynt að lagfæra bága fjárhagsstöðu heimilisins þegar hún byrjaði að svíkja fé út úr Félagsmálastofnun Danmerkur. Getty

Saksóknarar í Danmörku greindu frá því í morgun að farið verði fram á að fjársvikarinn Britta Nielsen verði dæmd til átta ára fangelsisvistar. Segir saksóknari að brot Nielsen séu einhver alvarlegustu efnahagsbrot sem framin hafa verið í Danmörku.

Réttarhöld í máli Brittu Nielsen hófust í október en hún er ákærð fyrir að hafa dregið sér á annað hundrað milljónir danskra króna frá danska ríkinu þegar hún starfaði hjá félagsmálaráðuneytinu þar í landi.

Nú styttist í annan endann á réttarhöldunum og flutti saksóknari lokaræðu sína í morgun þar sem hann greindi frá því að hann færi fram á átta ára dóm. Verjandi Nielsen heldur sína lokaræðu síðar í dag.

Hefur játað sekt að stærstum hluta

Nielsen hefur nú þegar játað sekt að stærstum hluta í málinu. Nielsen hefur þó neitað að hafa borið ábyrgð á einstaka millifærslum. Nielsen sagðist í vitnastúku hafa fallið í freistni og á sínum tíma reynt að lagfæra bága fjárhagsstöðu heimilisins þegar hún byrjaði að svíkja fé út úr Félagsmálastofnun Danmerkur.

Í ákæru sagði að á árunum 1997 til 2018 hafi hún dregið sér fé 298 sinnum með ólöglegum hætti. Á hún að hafa dregið sér 115 milljónir danskra króna, um 2,1 milljarð íslenskra króna. Þá segir í ákæru að Nielsen hafi einnig dregið sér fé á árunum 1993 til 2002, þá með öðrum aðferðum. Að auki er hún ákærð fyrir skjalafals og embættisbrot.

Handtekin í Suður-Afríku

Nielsen, auk þriggja uppkominna barna sinna og tengdasonar eru ákærð í málinu. Hafi börnin og tengdabarn þegið háar fjárhæðir frá Nielsen, sem þau hefðu mátt vita að væru illa fengnar. Nielsen var handtekin í íbúð Jóhannesarborgar í Suður-Afríku fyrir hálfu öðru ári og voru fulltrúar dönsku efnahagsbrotalögreglunnar viðstaddir handtökuna.

Hún var svo framseld til Danmerkur. Vitað er að Britta og börn hennar hafi meðal annars nýtt féð í að fjárfesta í dýrum hrossum, bílum og skartgripum.


Tengdar fréttir

Britta Nielsen mun ekki bera vitni

Danski fjársvikarinn Britta Nielsen er ákærð fyrir að hafa dregið sér á annað hundrað milljónir danskra króna frá danska ríkinu þegar hún starfaði hjá Félagsmálastofnun Danmerkur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.