Erlent

Britta Nielsen játar að stærstum hluta sök

Atli Ísleifsson skrifar
Öll börn Brittu Nielsen eru flækt í svik móður sinnar.
Öll börn Brittu Nielsen eru flækt í svik móður sinnar. AP/Themba Hadebe

Britta Nielsen, fyrrverandi starfsmaður danskra félagsmálayfirvalda sem ákærð er fyrir að hafa dregið sér á annað hundrað milljónir danskra króna frá danska ríkinu, játaði í morgun sök að stórum hluta.

Réttarhöld hófust í máli Nielsen í morgun. Nima Nabipour, verjandi hennar, sagði skjólstæðing sinn játa sök, en neita að hafa borið ábyrgð á einstaka millifærslum.

Danskir fjölmiðlar fylgjast grannt með réttarhöldunum, en sjúkrabíll var kallaður til eftir að Nielsen fór að finna fyrir líkamlegum ónotum í réttarsal.

Nabipour sagði Nielsen játa að hafa dregið sér fé frá Félagsmálastofnun Danmerkur, þar sem hún starfaði, og lagt inn á eigin reikning. Hún hafnaði þó að fjárdrátturinn hafi staðið yfir svo langt tímabil, frá 1993 til 2018 líkt og segir í ákæru, þar sem hún kannist ekki við fjölda millifærslanna.

Sjá einnig:Heil fjölskylda grunuð í einu umfangsmesta fjársvikamáli Danmerkur

Í ákæru sagði að á árunum 1997 til 2018 hafi hún dregið sér fé 298 sinnum með ólöglegum hætti. Á hún að hafa dregið sér 115 milljónir danskra króna, um 2,1 milljarð íslenskra króna. Þá segir í ákæru að Nielsen hafi einnig dregið sér fé á árunum 1993 til 2002, þá með öðrum aðgerðum. Að auki er hún ákærð fyrir skjalafals og embættisbrot.

Dætur Brittu, Samita og Jamilla, ræddu málið við Kanal 5 á síðasta ári.Skjáskot

Hestar, skart og bílar

Hin 65 ára Nielsen mætti fyrir réttinn í morgun ásamt syni sínum Jimmy Hayat, sem einnig situr í gæsluvarðhaldi vegna málsins.

Nielsen, auk þriggja uppkominna barna sinna og tengdasonar eru ákærð í málinu. Hafi börnin og tengdabarn þegið háar fjárhæðir frá Nielsen, sem þau hefðu mátt vita að væru illa fengnar.

Nielsen var handtekin í íbúð Jóhannesarborgar í Suður-Afríku fyrir um ári og voru fulltrúar dönsku efnahagsbrotalögreglunnar viðstaddir handtökuna. Hún var svo framseld til Danmerkur.

Vitað er að Britta og börn hennar hafi meðal annars nýtt féð í að fjárfesta í dýrum hrossum, bílum og skartgripum.


Tengdar fréttir

Danski fjársvikarinn Britta Nielsen handtekin

Dönsk kona sem grunuð er um að hafa svikið um 111 milljónum danskra króna, rúma tvo milljarða íslenskra króna, úr sjóðum danskra félagsmálayfirvalda, var handtekin í Jóhannesarborg í Suður-Afríku í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×