Erlent

Braut og japlaði á síma í „martraðarflugi“ til Íslands

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vélar Easyjet á Gatwick-flugvelli.
Vélar Easyjet á Gatwick-flugvelli. Getty/Education Images

Fimmtugur Breti hefur játað að hafa ógnað öryggi farþega um borð í vél Easy Jeat á leið frá Manchester til Íslands í janúar á síðasta ári. Hann á yfir höfði sér fangelsisvist.

Greint var frá því í janúar á síðasta ári að flugstjóri farþegaþotunnar þurfti að lenda þotunni í Edinborg í Skotlandi vegna drukkins farþega sem var með ólæti. Lýstu farþegar þessari áætlunarferð sem martraðarflugi í samtali við breska fjölmiðla á sínum tíma.

Daily Mail fjallar um dómsmálið á hendur manninum í dag þar sem málsatvikum er lýst nánar. Þar segir að maðurinn hafi gripið gin-flösku úr farangri sínum og hafið drykkju. Eftir að kvenkyns farþegar höfðu hafnað því að ræða við manninn varð hann mjög reiður og hótaði að drepa fjölskyldumeðlimi annarra farþega.

Á leið til lendingar virðist sem svo að maðurinn hafi brotið síma sinn í tvennt og byrjað að bryðja símann. Skar hann sig í leiðinni.

Við þetta virðist rafhlaða símans hafa skemmst og byrjaði hún að hitna eftir að maðurinn kastaði henni frá sér. Brugðust flugliðar við með því að kæla rafhlöðuna og setja hana í vatnsglas.

Lögmaður mannsins segir að hann muni líti sem ekkert eftir flugferðinni en að hann skammist sín gríðarlega fyrir hegðunina. Á hann yfir höfði sér fangelsisdóm vegna málsins en ákvörðun um það verður tekin í næsta mánuði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×