Erlent

Sjerpar deila á áform um að hreinsa til á Everest-tindi

Kjartan Kjartansson skrifar
Sólin gægist á bak við tind Everest-fjalls. Göngufólk skilur eftir mikið af rusli á fjallinu og þá er þar fjöldi líka fjallgöngumanna sem hafa farist á leiðinni.
Sólin gægist á bak við tind Everest-fjalls. Göngufólk skilur eftir mikið af rusli á fjallinu og þá er þar fjöldi líka fjallgöngumanna sem hafa farist á leiðinni. Vísir/Getty

Áform nepalskra stjórnvalda um að ráðast í hreinsunarstarf á Everest-fjalli og fleiri fjallstindum sæta gagnrýni frá sjerpum sem fullyrða að hermenn sem eiga að sjá um fjarlægja rusl skorti kunnáttu til að klífa hæstu tinda svæðisins.

Til stendur að fjarlægja um 35 tonn af rusli af Everest-fjalli og fimm öðrum Himalajatindum. Nepölsk stjórnvöld ætla að fela hernum og sjá um hreinsunarstarfið og verja til þess um 7,5 milljónum dollara, jafnvirði um 950 milljóna íslenskra króna, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Sjerpar, sem hafa séð um leiðsögn um fjallstindana um áratugaskeið, eru ekki ánægðir með þessi áform. Kami Rita Sjerpa, sem hefur klifið Everest 24 sinnum, oftar en nokkur annar, segist að hermenn skorti kunnáttu til að komast á tindana sem á að hreinsa. Hann vill að stjórnvöld fái frekar sjerpa til þess að týna upp ruslið og greiði þeim sanngjörn laun fyrir.

„Aðeins sjerpaleiðsögumenn og burðarmenn geta gert það. Þeir ættu að fá almennilega umbun til að hreinsa fjöllin,“ segir hann.

Fjallgöngumenn skilja gjarnan eftir alls kyns búnað á fjöllunum sem þeir klífa, þar á meðal súrefnis- og gaskúta, fjallgöngubúnað og matvælaumbúðir. Auk þess láta nokkrir þeirra lífið á hverju ári. Lík þeirra eru í mörgum tilfellum skilin eftir á fjallinu og verða þau flutt niður í hreinsunarstarfinu sem stendur fyrir dyrum. Ellefu fjallgöngumenn fórust á Everest í fyrra.

Ang Tshering Sjerpa, fyrrverandi forseti Fjallgöngumannasambands Nepals, segir að erfitt verði að koma sorpi og líkum niður af fjöllunum, jafnvel fyrir sjerpa.

„Það er virkilega erfitt að færa þunga kúta eða lík úr efri búðunum. Sjerpar hætta oft lífi sínu til þess. Flest frosnu líkanna geta vegið allt að 150 kíló og það virðist ómögulegt fyrir sjerpa að bera niður,“ segir hann við BBC í Nepal.

Auk Everest-fjalls ætla nepölsk stjórnvöld að hreinsa til á fjöllunum Lhotse, Umpor, Amadablam, Makalu og Dhaulagiri.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.