Innlent

Björgunarsveitarfólk smalaði fólki af Sólheimasandi vegna veðurs

Sylvía Hall skrifar
Flugvélarflakið er vinsæll áningarstaður ferðamanna.
Flugvélarflakið er vinsæll áningarstaður ferðamanna. Vísir/Landmælingar

Björgunarsveitir voru kallaðar út til þess að rýma Sólheimasand vegna óveðurs. Áður hafði lögregla farið á vettvang í því skyni að vara ferðamenn við því að fara að flugvélarflakinu á sandinum þar sem aðstæður væru slæmar.

Orri Örvarsson, formaður björgunarsveitarinnar Víkverja í Vík í Mýrdal, segir það hafa gengið vel að smala ferðamönnum af svæðinu og þeir hafi unnið að því í samstarfi við ferðaþjónustuaðila á svæðinu.

„Það er alls ekkert ferðaveður þarna,“ segir Orri í samtali við fréttastofu þegar hann er spurður um aðstæður. Mikill vindur sé á svæðinu og veðrið fari versnandi.

Sigurður Sigurbjörnsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, sagði í samtali við fréttastofu í dag að ferðamenn hefðu tekið fálega í viðvaranir og margir hverjir lagt af stað þrátt fyrir það fyrr í dag. Sagðist hann hafa tjáð ungu pari frá því að par á þrítugsaldri hefði látist á sandinum vegna veðurs í janúar en það hafi ekki haft mikil áhrif á ferðaplön þeirra.

„Ég sagði þeim að það væru mjög hættulegar aðstæður og það væri stormur í aðsigi. Þau virtust taka því vel en stuttu síðar sá ég að þau voru lögð af stað. Ég sá margt fólk sem var að labba niður eftir, missandi húfur og trefla og átti erfitt með að fóta sig þarna á veginum,“ sagði Sigurður í samtali við fréttastofu.

Þetta er í annað skiptið í vikunni sem björgunarsveitin er kölluð út til þess að smala ferðamönnum burt af sandinum vegna veðurs. Að sögn lögreglunnar er það gert þar sem hún vilji hafa vaðið fyrir neðan sig í þessum efnum í ljósi banaslyssins sem varð í janúar.

Gular viðvaranir tóku gildi í hádeginu á Suðurlandinu og segir Orri skafrenning vera á svæðinu. Því sé ekki ráðlagt að fólk sé á ferli á meðan viðvörunin sé í gildi.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×