Innlent

Senda menn að flugvélarflakinu til að smala fólki burt í tæka tíð fyrir storminn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Flugvélarflakið er vinsæll áningarstaður ferðamanna.
Flugvélarflakið er vinsæll áningarstaður ferðamanna. Vísir/Landmælingar

Lögreglan á Suðurlandi hefur fengið björgunarsveitina Víkverja í Vík í Mýrdal til þess að smala þeim saman sem kunna að vera á ferli á göngustígnum að flugvélaflakinu á Sólheimasandi í dag burt svo enginn verði á ferli þar þegar óveðrið sem spáð hefur verið skellur yfir.

Þetta staðfestir Sigurður Sigurbjörnsson varðstjóri hjá Lögreglunni á Suðurlandi í samtali við Vísi. Lögreglan vilji hafa vaðið fyrir neðan sig í þessum efnum í ljósi þess atviks sem varð þegar tveir erlendir ferðamenn urðu úti á Sólheimasandi í vonskuveðri í janúar.

Eftir að björgunarsveitarmann hafa komið þeim sem kunni að vera á ferli við flakið aftur upp á þjóðveg eitt verður göngustígnum að flakinu lokað með lögregluborða.

Rauð veðurviðvörun er í gildi fyrir svæðið frá klukkan sex á morgun til hádegis en búist er við austan ofsaveðri, jafn vel fáriviðri á Suðurlandi á morgun. Þannig er gert ráð fyrir miklu hvassviðri og hættulegum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 55 m/s, einkum undir Eyjafjöllum, við Ingólfsfjall og á heiðum.

Snjókoma með köflum og mikill skafrenningur líklegur. Miklar samgöngutruflanir og niðurfelling þjónustu líkleg. Sjávarstaða er hækkuð og mikill áhlaðandi og ölduhæð. Hætta er á foktjóni og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki er bent á að ganga frá lausum munum og vera ekki á ferð.

Fylgjast má með nýjustu tíðindum af veðrinu í veðurvakt Vísis hér.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.