Fótbolti

Aron og Arnór Ingvi á skotskónum í dag

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnór Ingvi í leik með íslenska landsliðinu.
Arnór Ingvi í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Vilhelm

Það var nóg um að vera hjá íslenskum knattspyrnumönnum í dag. Þeir Arnór Ingvi Traustason og Aron Sigurðarson voru báðir á skotskónum í dag. Mark Arons má finna hér að neðan.

Arnór Ingvi var í byrjunarliði Malmö sem valtaði yfir Syrianska á heimavelli í sænsku bikarkeppninni í dag, lokatölur 8-0. Arnór skoraði þriðja mark Malmö á 22. mínútu leiksins eftir slæm mistök í vörn gestanna. Syrianska leikur í C-deildinni í Svíþjóð.

Arnór og félagar fá talsvert erfiðari mótherja í næsta leik er þeir mæta Wolfsburg í fyrri leik liðanna í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Rúnar Alex Rúnarsson stóð allan tímann á milli stanganna hjá Dijon sem gerði 2-2 jafntefli við Bordeaux á útivelli í frönsku úrvalsdeildinni í dag. Mounir Chouiar gerði bæði mörk Dijon sem situr í 18. sæti deildarinnar, umspilssæti um að halda sæti sínu í deildinni.

Reikna má með að Rúnar Alex spili alla leiki Dijon fram á sumar en hinn markvörður liðsins, Alfred Gomis, meiddist illa á dögunum.

Aron Sigurðarson var á skotskónum í belgísku B-deildinni en lið hans Union St. Gilloise gerði 3-3 jafntefli við Roeselare í dag. Aron skoraði þriðja mark liðsins í dag en staðan í hálfleik var 3-0 fyrir St. Gilloise. Roeselare komu til baka í síðari hálfleik og náðu að jafna metin.

Kolbeinn Þórðarson var í byrjunarliði Lommel sem tapaði 1-0 á heimavelli fyrir KVC Westerlo, einnig í belgísku B-deildinni. Kolbeinn var tekinn af velli á 86. mínútu leiksins.

St. Gillouse eru í 4. sæti með 38 stig en Lommel í því 6. með 28 stig.


Tengdar fréttir

Rúnar Alex aðalmarkvörður Dijon á ný | Byrjar brösulega

Rúnar Alex Rúnarsson, einn markvarða íslenska landsliðsins, hefur mátt þola mikla bekkjarsetu á leiktíðinni en hann er leikmaður Dijon í Frakklandi. Staða hans hefur hins vegar breyst og reikna má með að hann leiki alla leiki liðsins sem eftir eru á leiktíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×