Fótbolti

Sverrir Ingi hafði betur gegn Ögmundi | Alfreð lék í jafntefli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sverrir Ingi fagnaði enn einum sigrinum í dag.
Sverrir Ingi fagnaði enn einum sigrinum í dag. Vísir/to10.gr

Sverrir Ingi Ingason hafði betur gegn Ögmundi Kristinssyni í Íslendingaslag grísku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag þegar PAOK lagði Larissa 2-1 á útivelli. Báðir léku allan leikinn í sínum liðum, Ögmundur í marki Larissa og Sverrir Ingi í hjarta varnarinnar hjá PAOK.

PAOK hefur verið á miklu skriði undanfarið og sigurinn því ekki beint óvæntur. Dimitris Limnios kom gestunum yfir á 14. mínútu og þegar komið var fram á þriðju mínútu uppbótartíma í fyrri hálfleiks tvöfaldaði Douglas Augusto forystu PAOK. Theocharis Iliadis minnkaði muninn fyrir heimamenn á þeirri 67. en þar við sat. 

Lokatölur 2-1 PAOK í vil en Sverrir Ingi fékk gult spjald í uppbótartíma leiksins. 

PAOK er nú jafnt Olympiakos á toppi deildarinnar með 58 stig þegar 24 umferðum er lokið en Larissa er í 10. sæti með 26 stig.

Í þýsku úrvalsdeildinni var Alfreð Finnbogason í byrjunarliði Augsburg sem gerði 1-1 jafntefli við Freiburg. Alfreð var tekinn af velli á 80. mínútu og náði ekki að setja mark sitt á leikinn. Alfreð og félagar eru í 11. sæti með 27 stig á meðan Freiburg er í því 7. með 33 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×