Erlent

Tugir féllu í loftárás Sáda í Jemen

Kjartan Kjartansson skrifar
Grafreitur í Sanaa, höfuðborg Jemen. Talið er að rúmlega 100.000 manns hafi fallið í borgarastríðinu þar. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Grafreitur í Sanaa, höfuðborg Jemen. Talið er að rúmlega 100.000 manns hafi fallið í borgarastríðinu þar. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/EPA

Talið er að rúmlega þrjátíu manns, þar á meðal óbreyttir borgarar, hafi fallið í loftárás hernaðarbandalags Sáda í gær. Talsmaður bandalagshersins neitar því ekki að óbreyttir borgarar gætu hafa fallið í árásunum sem eru taldar hefndaraðgerð vegna herþotu Sáda sem uppreisnarmenn Húta sögðust hafa skotið niður á föstudag.

Skrifstofa Sameinuðu þjóðanna í Jemen sagði bráðabirgðaskýrslur um mannfall benda til þess að allt að 31 óbreyttur borgari hafi fallið og tólf aðrir særst í árásum bandalagshersins í al-Hayjah í al-Jawf-héraði. Heilbrigðisráðuneyti stjórnar Húta á svæðinu segir að konur og börn séu á meðal þeirra föllnu, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Hútar lýstu yfir ábyrgð á því að herflugvél bandalagshers Sáda sem styður stjórnarherinn í landinu fórst á svæðinu á föstudag. Sádar hafa aðeins viðurkennt að vélin hafi „hrapað“. Turki al-Malki, ofursti og talsmaður bandalagshersins, segir að leitaraðgerðir væru hafna vegna vélarinnar og útilokaði ekki mannfall óbreyttra borgara. Fullyrti hann að tveir af þeim sem voru um borð í vélinni hafi skotið sér út úr henni en Hútar hafi skotið á þá.

Sádar og bandalag ríkja þar sem súnnímúslimar eru í meirihluta greip inn í borgarastríð í Jemen árið 2015 og hefur stutt stjórnarherinn gegn uppreisnarmönnum Húta sem steyptu þáverandi ríkisstjórn landsins af stóli árið 2014. Stríðið er almennt talið staðgöngustríð á milli Sáda og erkifjenda þeirra Írana sem styðja Húta.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.