Erlent

„Tom, ertu tilbúinn að semja?“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Tom Hagen og Anne-Elisabeth Hagen.
Tom Hagen og Anne-Elisabeth Hagen. Vísir/AP

Tom Hagen, eiginmaður Anne-Elisabeth Hagen sem hvarf frá heimili þeirra hjóna í Noregi haustið 2018, fór á svig við ráðleggingar lögreglu og greiddi meintum mannræningjum konu sinnar 1,3 milljónir evra í fyrra. Þetta gerði hann eftir að honum barst bréf í júlí síðastliðnum, þar sem ræningjarnir skerptu á kröfum sínum og upplýstu hann um heilsufar Anne-Elisabeth.

Ekkert hefur spurst til Anne-Elisabeth síðan 31. október 2018. Rannsókn á hvarfi hennar er ein sú umfangsmesta í sögu norskrar lögreglu. Í upphafi var gengið frá því að Anne-Elisabeth hefði verið rænt og talið að henni væri haldið í gíslingu. Í janúar var hvarf hennar hins vegar formlega skráð sem óupplýst morðmál og Anne-Elisabeth þannig skráð myrt daginn sem hún hvarf í kerfum lögreglu.

Komu víða við

Norska dagblaðið VG greinir nú fyrir helgi frá efnistökum skeytis, sem barst Hagen-fjölskyldunni stafrænt þann 8. júlí í fyrra. Á þeim tímapunkti hafði ekkert heyrst í hinum meintu mannræningjum í fimm mánuði. VG birtir skilaboðin ekki orðrétt, og virðist raunar ekki hafa þau undir höndum, en kveðst hafa rætt við fólk sem hefur lesið þau.

Í frétt blaðsins segir að skilaboðin séu rituð á illlæsilegri samsuðu mismunandi tungumála en megininntak þeirra sé eftirfarandi:

Tom, ertu tilbúinn að semja? Það væru mistök að svíkja okkur, skilurðu það?

Mannræningjarnir ávarpa þar Tom Hagen, eiginmann Anne-Elisabeth, með nafni. Þá virðist sem þeir geri honum ljóst að það yrðu mistök af hans hálfu að svíkja þá. Þeir upplýsa Tom Hagen jafnframt um heilsufar Anne-Elisabeth; honum er tjáð að Anne-Elisabeth sé á lífi og hafi beðið lengi eftir honum. Þá er hann upplýstur um hvað það myndi kosta að fá sönnun fyrir því að Anne-Elisabeth sé á lífi.

Tommy Brøske yfirmaður rannsóknardeildar hjá norsku lögreglunni á blaðamannafundi vegna hvarfs Anne-Elisabeth.Vísir/EPA

Tommy Brøske, yfirlögregluþjónn sem stýrt hefur rannsókninni á hvarfi Anne-Elisabeth, staðfestir í samtali við VG að ræningjarnir hafi komið víða við í skilaboðunum sem bárust þann 8. júlí. Hann geti þó ekki tjáð sig frekar um efni þeirra á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Tímasetningin grunsamleg

Þá greinir VG frá því að fram að þessu hafi Tom Hagen fylgt fyrirmælum lögreglu í samskiptum við mannræningjana. Hann hafi reitt fram nokkrar greiðslur í rafmynt, allar tiltölulega lágar, líkt og ræningjarnir fóru fram á í kröfubréfinu sem skilið var eftir á heimili Hagen-hjónanna daginn sem Anne-Elisabeth hvarf. Heildarkrafa þeirra var þó um hundrað milljónir Bandaríkjadalir í rafmyntinni Monero.

Eftir að skilaboðin bárust 8. júlí fór Tom Hagen hins vegar á svig við ráðleggingar lögreglu og sendi ræningjunum 1,3 milljónir evra, um 180 milljónir íslenskra króna. Sú upphæð var samkvæmt nýjum kröfum ræningjanna sem útlistaðar voru í skilaboðunum

Ekkert hefur heyrst frá ræningjunum síðan en lögreglu hefur reynst ómögulegt að rekja skilaboðin. Þá segir Brøske tímasetningu þeirra grunsamlega, í ljósi þess sem á undan var gengið. Ein kenning lögreglu er sú að mannræningjarnir hafi sett sig í samband við fjölskylduna 8. júlí vegna þess að rúmri viku áður hafði lögregla tilkynnt að gengið væri út frá því að Anne-Elisabeth hefði verið ráðinn bani.


Tengdar fréttir

Lögregla leitar svara hjá skókaupendum

Lögregla í Noregi beinir nú sjónum sínum að sporum sem fundust á heimili Anne-Elisabeth Hagen, einnar ríkustu konu Noregs, sem var rænt af heimili sínu í Lørenskógi í lok október í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×