Erlent

Settu sig í sam­band við meinta mann­ræningja fyrr í mánuðinum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ekkert hefur spurst til Anne-Elisabethar Hagen síðan í október í fyrra.
Ekkert hefur spurst til Anne-Elisabethar Hagen síðan í október í fyrra. Norska lögreglan
Fjölskylda Anne-Elisabeth Hagen sendi fyrr í þessum mánuði skilaboð til þeirra sem grunaðir eru um að hafa annað hvort myrt hana eða rænt henni í október í fyrra.

Á morgun er ár síðan það spurðist síðast til Anne-Elisabethar en hún hvarf af heimili sínu og eiginmanns síns, Tom Hagen, þann 31. október 2018.

Hagen er einn ríkasti maður Noregs og hótuðu meintir mannræningjar því að myrða Anne-Elisabeth og birta myndband af aftökunni ef Hagen myndi ekki borga rúman milljarð í lausnargjald í órekjanlegri rafmynt.

Lögmaður Hagen-fjölskyldunnar, Svein Holden, hélt blaðamannafund klukkan fjögur í dag að íslenskum tíma.

Þar greindi hann frá því að fjölskyldan hefði sett sig í samband við þá grunuðu nú í október en ekkert heyrt frá þeim aftur.

Síðustu skilaboð frá mönnunum voru í júlí og sögðu þeir þá að Anne-Elisabeth væri á lífi. Holden sagði fjölskylduna tilbúna til þess að leggja mikið á sig til þess að fá viðhlítandi svör um það hvað hafi komið fyrir Anne-Elisabeth.

 

Þá sagði Holden fjölskylduna hafa miklar áhyggjur og að síðasta ár hafi verið henni mjög erfitt auk þess sem búast megi við því að morgundagurinn verði afar erfiður.  

Ekkert hefur spurst til Anne-Elisabeth síðan hún hvarf og hefur lögreglan orðið lítils vísari. Þó telur hún að Anne-Elisabeth hafi verið myrt, þrátt fyrir skilaboð um að hún sé á lífi, og að mannránið hafi verið sviðsett til þess að hylma yfir slóð morðingjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×