Erlent

Segir Flack hafa staðið til boða að snúa aftur í Love Is­land

Sylvía Hall skrifar
Caroline Flack lést á laugardag.
Caroline Flack lést á laugardag. Vísir/Getty

Kevin Lygo, yfirmaður sjónvarps hjá ITV, segir teymið á bakvið Love Island hafa verið í reglulegum samskiptum við Caroline Flack eftir að hún steig til hliðar sem þáttastjórnandi í þáttunum í desember síðastliðnum. Flack lést á laugardag eftir að hafa svipt sig lífi.

Þetta er í fyrsta sinn sem Lygo tjáir sig um andlát hennar en framleiðendur þáttanna hafa verið gagnrýndir fyrir það að hafa ekki sýnt henni nægilegan stuðning eftir að hún steig til hliðar. Ástæða þess var ákæra á hendur henni fyrir líkamsárás á kærasta sinn en hún neitaði ávallt sök og var kærasti hennar jafnframt mótfallinn því að hún yrði ákærð.

Sjá einnig: Dýrkuð og dáð í Love Island en fékk aldrei frið fyrir bresku slúðurpressunni

„Allir hjá ITV eru gjörsamlega miður sín og eru enn að reyna að vinna úr þessum hræðilegu fréttum,“ segir Lygo í yfirlýsingunni. Hann segir Flack hafa verið mikilvægan þátt í velgengni þáttanna frá upphafi og henni hafi alltaf staðið til boða að koma aftur.

„Þegar Caroline steig til hliðar gerði ITV henni ljóst að dyrnar stæðu opnar fyrir hana ef hún vildi snúa aftur og Love Island framleiðsluteymið var í reglulegum samskiptum við hana og sýndi henni stuðning undanfarna mánuði.“

Sjálfsvíg Flack er það þriðja á tveimur árum sem tengist þáttunum. Tveir fyrrverandi þátttakendur hafa þannig svipt sig lífi, annars vegar Sophie Gradon og hins vegar Mike Thalassitis. Áhorfendur fóru í kjölfarið að láta áhyggjur sínar í ljós af sálarlífi þátttakenda í þáttunum og illri meðferð á þeim.

„Caroline elskaði Love Island og var opinská um stuðning sinn við þáttinn. Áhorfendur gátu tengt við hana og hún við þá og það var stór hluti af velgengni þáttanna. Við munum öll sakna hennar mjög mikið.“

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Nánari upplýsingar hér.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.