Erlent

Breska slúður­pressan harð­lega gagn­rýnd vegna dauða Flack

Sylvía Hall skrifar
Flack á leið í dómsal á desember á síðasta ári.
Flack á leið í dómsal á desember á síðasta ári. Vísir/Getty

Lewis Burton, tenniskappi og kærasti sjónvarpsstjörnunnar Caroline Flack, segist vera í molum eftir dauðsfall hennar. Þetta kemur fram í hjartnæmri færslu á Instagram-síðu hans. Flack fannst látin á heimili sínu í London í gær.

Lögmaður fjölskyldunnar segir Flack hafa framið sjálfsvíg en að sögn aðstandenda hafði hún átt mjög erfitt undanfarna mánuði. 

Caroline Flack og Lewis Burton í október á síðasta ári.Vísir/Getty

Á síðasta ári var hún ákærð fyrir að ráðast á kærasta sinn og átti málið að vera tekið fyrir núna í mars. Kærasti hennar var mótfallinn því að hún yrði ákærð fyrir líkamsárásina en þau máttu ekki vera í samskiptum fram að málsmeðferð.

Sjá einnig: Fyrrverandi þáttastýra Love Island fannst látin

Breskir slúðurmiðlar hafa verið harðlega gagnrýndir eftir að greint var frá andláti Flack. Þeir höfðu fjallað mikið um einkalíf hennar og téða líkamsárás. Til að mynda eyddi slúðurmiðillinn The Sun grein sem birt var á föstudag þar sem gert var grín að líkamsárásinni. Í greininni mátti sjá Valentínusarkort með mynd af Flack þar sem stóð: „Ég mun fokking lampa þig“ - sem var tilvísun í líkamsárásina.

Á aðfangadag sagði Flack athyglina og slúðursögurnar vera yfirþyrmandi og þykir líklegt að hún hafi verið að vísa í fyrrnefnda ákæru. Hún birti langa færslu á Instagram-síðu sinni þar sem hún sagðist ekki ætla að láta þagga niður í sér og hún myndi segja sína sögu einn daginn.

Henni hafði verið ráðlagt að forðast samfélagsmiðla og ætlaði að taka sér tíma til þess að vinna í eigin vellíðan.

„Ég ætla að taka mér smá hlé til þess að líða betur og draga lærdóm af þeim aðstæðum sem ég hef komið mér í sjálf. Ég hef ekkert nema ást til þess að gefa og óska ykkur öllum alls hins besta,“ skrifaði Flack.



Flack hafði áður notið mikilla vinsælda sem þáttastjórnandi hinna ýmsu þátta, til að mynda Big Brother‘s Big Mouth, I‘m a Celebrity… Get Me Out of Here NOW!, X Factor og nú síðast í hinum geysivinsælu Love Island.

Þá vakti hún heimsathygli þegar hún átti í ástarsambandi við Harry Styles þegar hann var sautján ára gamall en Flack var fjórtán árum eldri.

Caroline Flack hafði verið áberandi í bresku pressunni undanfarin ár.Vísir/Getty

„Við áttum eitthvað einstakt“

Lewis Burton birti í morgun hjartnæma færslu þar sem hann minnist Flack. Þar segir hann hjarta sitt brotið og þau hafi átt eitthvað einstakt saman.

„Ég er eiginlega orðlaus. Ég er að upplifa svo mikinn sársauka. Ég sakna þín svo mikið. Ég veit að þú varst örugg með mér. Þú sagðir alltaf að ég hugsaði ekki um neitt annað þegar ég væri með þér og ég mátti ekki vera með þér núna, ég hélt áfram að biðja og biðja,“ skrifar Burton á Instagram.



Líkt og fyrr sagði máttu þau ekki eiga í samskiptum þar til málið yrði tekið fyrir dómstólum. Sú ákvörðun lagðist þungt á þau bæði enda mótfallin ákærunni. Málið varð þó til þess að Flack missti starf sitt sem þáttastýra Love Island.

„Ég verð röddin þín elskan. Ég lofa að ég mun spyrja allra spurninganna sem þú vildir og ég mun fá svörin sem þú vildir. Það er ekkert sem ég get gert til að endurheimta þig en ég mun reyna að gera þig stolta alla daga.“

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Nánari upplýsingar hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×