Vladímír Pútín, forseti Rússlands, gæti notið friðhelgi frá saksókn jafnvel þegar og ef hann lætur af völdum ef tillaga um stjórnarskrárbreytingu sem rússneska þingið hefur til umfjöllunar verður samþykkt. Á meðal annarra tillagna sem þingið gaumgæfir er að útnefna Pútín „æðsta leiðtoga“ Rússlands.
Fyrrverandi forsetar yrðu gerðir að öldungadeildarþingmönnum fyrir lífstíð samkvæmt tillögunum sem starfshópur rússneska þingsins fer nú yfir. Þingmenn beggja deilda rússneska þingsins njóta friðhelgi fyrir saksókn. Pavel Krasjennikov, varaformaður starfshópsins, staðfesti að þetta væri til skoðunar, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
„Forseti Rússlands, þegar hann hefur látið af völdum, er friðhelgur,“ sagði Krasjennikov um tillögurnar sem eru til skoðunar.
Starfshópurinn fer nú yfir ýmsar tillögur að breytingum á stjórnarskrá eftir að Pútín kynnti umfangsmiklar breytingar á stjórnskipan Rússlands í síðasta mánuði. Tillögur Pútín myndu færa völd frá forsetaembættinu og er talið að þeim sé ætlað að gera honum kleift að halda í völdin eftir að núverandi kjörtímabili hans lýkur árið 2024. Samkvæmt núverandi stjórnarskrá ætti Pútín ekki að geta boðið sig fram til forseta eftir það.
Neðri deild þingsins hefur þegar samþykkt tillögur Pútín um breytingar á forsetaembættinu. Til þess að hugmyndir starfshópsins verði að lögum þarf neðri deildin að samþykkja þær í tveimur atkvæðagreiðslum áður en þær ganga til efri deildarinnar. Héraðsþings fengju tillögurnar til umsagnar en þær yrðu svo sendar Pútín til undirskriftar.
Pútín, sem hefur verið við völd í tuttugu ár, hefur haldið því fram að hann muni halda þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingarnar en engin dagsetning hefur verið ákveðin fyrir hana.