Krakkalið Liver­pool sló út Shrews­bury og nú bíður Chelsea

Anton Ingi Leifsson skrifar
Leikmenn Liverpool fagna sigurmarkinu.
Leikmenn Liverpool fagna sigurmarkinu. vísir/getty

Unglingalið Liverpool gerði sér lítið fyrir og vann 1-0 sigur á Shrewsbury í endurteknum leik liðanna í enska bikarnum en leikið var á Anfield í kvöld.

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, tók þá ákvörðun að enginn aðalliðsleikmaður né hann sjálfur myndi mæta til leiks í kvöld og því var það unglingaþjálfari Liverpool og hans strákar sem spiluðu leik kvöldsins.

Liverpool stillti í kvöld upp yngsta byrjunarliði sínu frá upphafi en meðalaldur byrjunarliðsins var aðeins 19 ár og 102 dagar. Þetta byrjunarlið bætir því ekki svo gamalt met byrjunarliðsins í deildabikarleiknum á móti Aston Villa í desember en meðalaldur þess liðs var 19 ár og 182 dagar.





Þrátt fyrir að enginn af stjörnunum hafi verið til taks í kvöld var Anfield þéttsetinn en ekki var mikið að gleðjast yfir í fyrri hálfleiknum. Heimamenn meira með boltann en ekkert mark var skorað og markalaust í hálfleik.

Áfram héldu ungu strákarnir að pressa neðri deildarliðið í síðari hálfleik en gestirnir virtust þó vera komast yfir á 58. mínútu er þeir komu boltanum í netið. Eftir skoðun í VARsjánni var þó markið dæmt af.







Fyrsta og eina mark leiksins kom stundarfjórðungi fyrir leikslok þegar Liverpool komst yfir með sjálfsmarki frá Ro-Shaun Williams en hann ólst upp hjá Manchester United.

Eftir hættulitla fyrirgjöf frá Neco Williams reyndi Williams að skalla boltann til baka á markvörð sinn en vandamálið var að hann var ekki í markinu. Boltinn í netið og Liverpool komið í 1-0.

Fleiri urðu mörkin ekki og Liverpool komið í 16-liða úrslitin. Magnaðir ungu drengirnir en mótherjarnir í næstu umferð eru Chelsea. Leikurinn er settur 5. mars á Stamford Bridge.







Newcastle þurfti svo framlengingu til að leggja Oxford af velli og Wayne Rooney skoraði eitt marka Derby í 4-2 sigri á Northampton. Vítaspyrnukeppni þurfti til hjá Reading og Cardiff og Birmingham og Coventry.

Öll úrslit kvöldsins:

Birmingham - Coventry 2-2 (Birmingham eftir vítaspyrnukeppni)

Cardiff - Reading 3-3 (Reading eftir vítaspyrnukeppni)

Derby - Northampton 4-2

Liverpool - Shrewsbury 1-0

Oxford - Newcastle 2-3 (eftir framlengingu)

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira