Íslenski boltinn

Konur eru aðeins 0,9 prósent aðalþjálfara í íslenskum fótbolta árið 2020

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Ólafsdóttir heldur upp heiðri kvenna í þjálfarahópnum í ár.
Helena Ólafsdóttir heldur upp heiðri kvenna í þjálfarahópnum í ár. Vísir/Anton

107 félög hafa skráð sig til leiks í Lengjubikar karla og kvenna í knattspyrnu í ár en það vekur athygli að aðeins ein kona skuli vera í þjálfarahópi þessara liða.

Fótbolti.net bendir á þessa staðreynd í dag. Í Lengjubikar karla eru 78 lið og í Lengjubikar kvenna eru liðinu 29 talsins. Helena Ólafsdóttir, sem þjálfar kvennalið Fjölnis, er eina konan í þessum 107 liðum sem er aðalþjálfari þó sums staðar séu konur í aðstoðarþjálfarstörfum.

1 kona af 107 þjálfurum þýðir að konur eru aðeins 0,9 prósent aðalþjálfara í íslenskum fótbolta 2020.

„Mér finnst skelfilegt að heyra þetta," sagði Ragna Lóa Stefánsdóttir í hlaðvarpsþættinum Miðjan á Fótbolta.net en Fótbolti.net segir frá þættinum í frétt sinni.

Ragna Lóa var aðstoðarþjálfari Böjönu Besic með KR í fyrrasumar en tók svo við liðinu tímabundið á miðju sumri þegar Bojana hætti. Undir stjórn Rögnu Lóu vann KR-liðið báða leikina sem hún stýrði. Hún steig samt til hliðar þegar Jóhannes Karl Sigursteinsson tók við.

Aðspurð hvort Ragna Lóa teldi ástæðuna liggja hjá félögunum að sækjast ekki eftir starfskröftum kvenna eða hvort konur sýndu störfunum ekki áhuga sagði Ragna Lóa:

„Ég held að þetta sé meiri ákvörðun kvennanna sjálfra. Við ákveðum að setja tímann í annað,“ sagði Ragna Lóa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×