Erlent

„Buttigieg er enginn Obama“

Andri Eysteinsson skrifar
Joe Biden gefur lítið fyrir borgarstjóratíð Buttigieg.
Joe Biden gefur lítið fyrir borgarstjóratíð Buttigieg. Getty/Bloomberg

Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, virðist sjá færi á að bæta við fylgi sitt með því að gagnrýna Pete Buttigieg sem hlaut nokkuð óvænt góða kosningu í forkosningum Demókrata í Iowa á dögunum.

Gengi Biden hefur ekki verið eins gott og búist var við og eltir hann nú uppi forskot þeirra Buttigieg og Bernie Sanders sem þykja í dag líklegastir til að hljóta tilnefningu Demókrata fyrir forsetakosningarnar í nóvember. Biden hefur undanfarið gagnrýnt reynsluleysi Buttigieg og talað niður afrek hans sem bæjarstjóra South Bend í Indiana.

„Buttigieg er engin Barack Obama,“ sagði Biden á kosningafundi í New Hampshire þar sem næstu forkosningar munu fara fram en Buttegieg hefur verið líkt við forsetann fyrrverandi á undanförnum vikum. Biden hélt svo áfram að gagnrýna reynsluleysi mótframbjóðanda síns. „Flokkurinn er í vanda staddur ef til tilnefnum einhvern sem hefur aldrei gengt æðra embætti en bæjarstjóri South Bend í Indiana,“ sagði Biden við fylgismenn sína í borginni Manchester í New Hampshire.

Buttigieg hefur, rétt eins og Obama fyrir kosningarnar 2008, verið gagnrýndur fyrir reynsluleysi og segir AP kosningaskrifstofu hans hafa reynt að líkja kosningabaráttu sinni við baráttu Obama.

„Obama hafði skýra sýn á hvernig heimsmyndin ætti að vera og hafði í smáatriðum skipulagt aðgerðir í efnahagsmálum,“ sagði Biden og gaf í skyn að sama ætti ekki við um Buttigieg.

Auglýsing Biden, þar sem afrek hans eru tíunduð og borin saman við afrek Buttigieg, hefur farið á flug. Minnist Biden þar á aðgerðir sínar í efnahags- og heilbrigðismálum og ber saman við ákvarðanir Buttegieg um að bæta við ljósum í bænum South Bend.





Buttigieg hefur gagnrýnt auglýsinguna og sagt Biden hafa gert lítið úr þeirri miklu vinnu sem unnin er í smábæjum víða um Bandaríkin. Ásamt Buttigieg hefur fjöldi annarra bæjarstjóra smábæja gagnrýnt auglýsinguna og sagt hana merki um örvæntingu í herbúðum Biden.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×