Erlent

Móðir og börnin hennar sex létust í elds­voða

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Húsið var illa leikið eftir eldinn.
Húsið var illa leikið eftir eldinn. twitter

Móðir og börnin hennar sex létust þegar eldur kom upp í húsi þeirra aðfaranótt laugardags í Mississippi í Bandaríkjunum. Yngsta barnið var aðeins árs gamalt.

Faðirinn var sá eini sem slapp út úr húsinu sem brann til kaldra kola í borginni Clinton. Hann var fluttur á sjúkrahús vegna reykeitrunar og annars stigs bruna. Verið er að rannsaka hver upptök eldsins voru.

Ekki er talið að neitt saknæmt hafi átt sér stað og líklegt væri að eldurinn hafi kviknað út frá raftæki. Húsið var gamalt viðarhús sem byggt var árið 1951.

Móðirin var 33 ára gömul og starfaði sem leikskólakennari. Börnin voru á aldrinum eins til fimmtán ára, fimm strákar og ein stelpa. Fimm barnanna fundust saman í hnipri inni í einu herbergjanna og móðirin fannst inni í öðru herbergi með sjötta barnið í fanginu. Faðirinn slasaðist við það að reyna að hlaupa inn í húsið til að bjarga fjölskyldunni.

Það tók slökkviliðið fjörutíu mínútur að ná tökum á eldinum sem kviknaði klukkan 00:30 að staðartíma. Þegar slökkvilið bar að garði fann það föðurinn fyrir utan og var hann að sögn slökkviliðsmanna í miklu uppnámi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×