Enski boltinn

Evrópsk stórlið á eftir leikmanni Crystal Palace

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mun Zaha loks yfirgefa Palace í sumar?
Mun Zaha loks yfirgefa Palace í sumar? Catherine Ivill/Getty Images

Það er nær öruggt að Wilfried Zaha – vængmaður enska úrvalsdeildarfélagsins Crystal Palace – verður ekki í herbúðum félagsins mikið lengur.

Hann hefur verið orðaður við lið á borð við Tottenham Hotspur, Arsenal og Everton undanfarna mánuði en nú virðist sem ýmis stórlið víðsvegar um Evrópu hafi áhuga á leikmanninum.

Palace ku hafa neitað tilboðum upp á 80 milljónir punda í leikmanninn síðasta sumar. Samningur hins 27 ára gamla Zaha rennur þó ekki út fyrr en sumarið 2023 og því gæti Palace enn fengið dágóða summu fyrir þennan margslungna leikmann.

Er talið að þýska stórliðið Borussia Dortmund hafi áhuga á því að fá Zaha í sínar raðir. Sömu sögu er að segja af frönsku félögunum Monaco og Paris Saint-Germain. Liðin þurfa þó að hafa hraðar hendur þar sem næsta tímabil er handan við hornið.

Zaha hefur nær allan sinn feril leikið fyrir Crystal Palace en hann fór þó til Manchester United á sínum tíma. Gekk sú dvöl ekki upp en hann hefur samt sem áður verið einn allra besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar undanfarin ár og nánast haldið Palace uppi einn síns liðs.

Zaha hefur alls leikið 362 deildar- og bikarleiki fyrir Palace. Í þeim hefur hann skorað 57 mörk, lagt upp önnur 70 ásamt því að næla sér í 58 gul spjöld sem verður að teljast afrek fyrir mann sem leikur á vængnum eða upp á topp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×