Íslenski boltinn

Jesus bjargvættur Leiknis | Markalaust í Mosfellsbæ

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jesus (t.h.) kom Leikni til bjargar með tveimur mörkum undir lok leiks.
Jesus (t.h.) kom Leikni til bjargar með tveimur mörkum undir lok leiks. Vísir/Vefsíða Leiknis F.

Tveimur leikjum af fimm er lokið í Lengjudeild karla í dag. Leiknir Fáskrúðsfjörður vann ótrúlegan 4-3 sigur á Grindavík. Á sama tíma gerðu Afturelding og Vestri markalaust jafntefli í Mosfellsbæ.

Mikil dramatík var í leik Leiknis Fáskrúðsfjarðar og Grindavíkur sem fram fór í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði. 

Sigurður Bjartur Hallsson kom gestunum yfir þegar rúmur hálftími var liðinn og var það eina mark fyrri hálfleiks. Guðmundur Magnússon tvöfaldaði forystu gestanna þegar tæpur klukkutími var liðinn en þegar sex mínútur voru til leiksloka fór af stað hreint út sagt ótrúleg atburðarrás.

Ásgeir Páll Magnússon minnkaði muninn fyrir heimamenn á 84. mínútu og mínútu síðar jafnaði Stefán Ómar Magnússon metin fyrir heimamenn. Gunnar Þorsteinsson kom Grindavík aftur yfir tveimur mínútum síðar, þrjú mörk á fjórum mínútum takk fyrir.

Þá var komið að Jesus Maria Meneses Sabater í liði Leiknis F. en hann jafnaði metin á 90. mínútu og skoraði svo sigurmark leiksins þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Í millitíðinni fékk Elias Tamburini rautt spjald í liði Grindavíkur.

Lokatölur 4-3 í hreint út sagt ótrúlegum leik. Leiknir F. er með 10 stig eftir níu leiki og sitja í níunda sæti deildarinnar. Aðeins stigi á eftir Grindavík.

Í Mosfellsbæ var Vestri í heimsókn og lauk leiknum með markalausu jafntefli. Bæði lið fara upp fyrir Grindavík í töflunni. Vestri er í 6. sæti með 12 stig á meðan Afturelding er sæti neðar með 11 stig.

Markaskorarar fengnir af Fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×