Erlent

Lögmenn forsetans krefjast tafarlausrar sýknu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Réttarhöld þingsins yfir forsetanum hefjast á morgun.
Réttarhöld þingsins yfir forsetanum hefjast á morgun. Vísir/Getty

Lögfræðiteymi Donalds Trump Bandaríkjaforseta, sem fer með málsvörn hans í réttarhöldum Bandaríkjaþings á hendur forsetanum vegna meintra embættisbrota, hefur krafist þess að forsetinn verði sýknaður með hraði.

Í útdrætti sem teymið skilaði af sér nú á mánudag voru málaferlin á hendur forsetanum kölluð „hættuleg skrumskæling“ á stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Á sama tíma hafa lögmenn á vegum þeirra þingmanna sem lagt hafa fram þingsákæruna á hendur Trump sakað forsetann um aðild að athæfi er tengdist spillingu og hefði þann tilgang að „svindla“ í næstu kosningum til forseta Bandaríkjanna.

Réttarhöld öldungadeildar Bandaríkjaþings yfir Trump hefjast á morgun, klukkan 13 að staðartíma í Washington-borg, eða klukkan 18 á Íslandi.

Trump er gefið að sök að hafa misnotað það vald sem hann hefur í krafti embættis síns með því að biðja úkraínsk stjórnvöld um að rannsaka Demókratann Joe Biden, en hann er meðal þeirra sem þykja sigurstranglegust í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar sem fram fara í nóvember. Eins er Trump gefið að sök að hafa reynt að hindra Bandaríkjaþing í að rannsaka þær ásakanir á hendur honum.

Verði Trump sakfelldur í öldungadeild þingsins yrði honum í kjölfarið vikið úr embætti forseta, en til þess þarf 67 atkvæði af 100 mögulegum. Repúblikanaflokkurinn, flokkur forsetans, er þó með 53 þingmenn í deildinni, og því telja stjórnspekingar ólíklegt að forsetinn verði sakfelldur.

Í útdrætti lögfræðiteymis forsetans, sem telur 171 blaðsíðu, eru málaferlin kölluð „hégómleg og hættuleg“ auk þess sem því er haldið fram að það athæfi sem forsetinn er sakaður um sé ekki glæpsamlegt.

„Demókratar í fulltrúadeild þingsins ákváðu að setja fram tvær klaufalegar ákærur á hendur forsetanum sem saka hann hvorki um glæpi né önnur lögbrot á nokkurn hátt,“ segir meðal annars í útdrættinum.

„Þær [ákærurnar] nálgast ekki á nokkurn hátt þann stjórnarskrárlega þröskuld sem til staðar er til þess að víkja forsetanum úr embætti.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.