Erlent

Thunberg gerir lítið úr háði bandaríska fjármálaráðherrans

Kjartan Kjartansson skrifar
Greta Thunberg sagði leiðtogum í Davos að þeir væru ekki að gera nóg til að leysa loftslagsvandann. Fjármálaráðherra Bandaríkjanna lést ekki þekkja hana þegar hann var fyrst spurður út í málflutning hennar.
Greta Thunberg sagði leiðtogum í Davos að þeir væru ekki að gera nóg til að leysa loftslagsvandann. Fjármálaráðherra Bandaríkjanna lést ekki þekkja hana þegar hann var fyrst spurður út í málflutning hennar. AP/Michael Probst

Ekki þarf gráðu í hagfræði til að átta sig á því að fjárfestingar í jarðefnaeldsneyti samræmis ekki markmiðinu um að halda hnattrænni hlýnun innan alþjóðlega samþykktra marka, að sögn Gretu Thunberg, sænsku loftslagsbaráttukonunnar ungu. Brást hún þannig við orðum fjármálaráðherra Bandaríkjanna sem sagði að hún ætti að læra hagfræði áður en hún krefðist þess að fé væri losað úr jarðefnaeldsneytisiðnaðinum.

Ummælin lét Steven Mnuchin, fjármálaráðherra, falla á efnahagsráðstefnunni í Davos í Sviss þegar hann var spurður út í kröfur Thunberg og fleiri um að hætt verði að nota jarðefnaeldsneytisins sem er uppruni meirihluti þeirra gróðurhúsalofttegunda sem menn losa og valda loftslagsbreytingum á jörðinni.

„Er hún aðalhagfræðingurinn?“ spurði Mnuchin í háði en hann þóttist í fyrstu ekki þekkja sænska aðgerðasinnann, að sögn AP-fréttastofunnar. Thunberg tók þátt í ráðstefnunni og hvatti þar kaupsýslumenn til þess að hætta að fjárfesta í jarðefnaeldsneyti.

Benti ráðherrann á að verulega efnahagslegar afleiðingar fylgdu því að hætta fjárfestingum í jarðefnaeldsneyti, meðal annars fyrir störf í heiminum.

„Eftir að hún fer og lærir hagfræði í háskóla getur hún komið aftur og útskýrt þetta fyrir okkur,“ sagði Mnuchin á blaðamannafundi.

Mnuchin gerði lítið úr gagnrýni Thunberg í Davos.AP/Steve Helber

Thunberg svaraði fyrir sig á Twitter í dag með grafi sem sýndi hversu mikið losun á gróðurhúsalofttegundum þarf að dragast saman á næstu árum til þess að hnattræn hlýnun fari ekki fram yfir þær 1,5°C sem samið var um að stefna á í Parísarsamkomulaginu.

„Fríárinu mínu lýkur í ágúst en það þarf ekki háskólagráðu í hagfræði til að gera sér grein fyrir að það sem við eigum eftir af kolefnisþakinu til að fara umfram 1,5°C og áframhaldandi niðurgreiðslur og fjárfestingar í jarðefnaeldsneyti ganga ekki upp saman,“ tísti Thunberg og vísaði til þess magns kolefnis sem áætlað er að þurfi til að hlýnun nái 1,5°C.

Bað hún Mnuchin um að greina frá því hvernig ætti að vega upp á móti losuninni.

„Eða útskýrðu fyrir framtíðarkynslóðum og þeim sem verða nú þegar fyrir áhrifum loftslagsneyðarinnar hvers vegna við ættum að falla frá loftslagsaðgerðum okkar,“ tísti hún.


Tengdar fréttir

Greta sakaði leiðtoga um aðgerðarleysi

Sænski loftslagsaðgerðasinninn Greta Thunberg ávarpaði gesti á fundi Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos í Sviss í morgun og gagnrýndi hún leiðtoga fyrir aðgerðarleysi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.