Erlent

Blaða­konan sem tísti um nauðgunar­mál Kobe Bry­ant braut ekki reglur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kobe Bryant lést í þyrluslysi í Los Angeles á sunnudagsmorgun. Dóttir hans, Gianna Bryant, lést einnig í slysinu, sem og sjö aðrir.
Kobe Bryant lést í þyrluslysi í Los Angeles á sunnudagsmorgun. Dóttir hans, Gianna Bryant, lést einnig í slysinu, sem og sjö aðrir. Vísir/getty

Blaðamaður Washington Post, sem vikið var tímabundið frá störfum vegna tísta um körfuboltamanninn Kobe Bryant í kjölfar andláts hans, braut ekki í bága við samfélagsmiðlastefnu blaðsins með tístum sínum. Þá kveðst ritstjóri hjá blaðinu sjá eftir því að hafa tjáð sig opinberlega um brottvikningu blaðamannsins.

Sjá einnig: Blaða­konu vikið frá störfum eftir tíst um nauðgunar­mál Kobe Bry­ant

Bryant lést í þyrluslysi í Los Angeles á sunnudag, ásamt Giönnu, þrettán ára dóttur sinni, og sjö öðrum. Skömmu eftir að fregnir bárust af andláti Bryants birti Felicia Sonmez, umræddur blaðamaður Washington Post, á Twitter-reikningi sínum hlekk á þriggja ára gamla grein Daily Beast um Bryant, þar sem fjallað er ítarlega um ásakanir á hendur honum um kynferðisofbeldi árið 2003. 

Felicia Sonmez, blaðamaður Washington Post.Twitter

Sonmez eyddi að endingu tístum sínum um málið, alls þremur, að ósk ritstjóra hjá Washington Post. Þá var henni tjáð að hún hefði með tístum sínum sýnt af sér alvarlegt dómgreindarleysi og grafið undan störfum samstarfsfélaga sinna. Henni var að lokum vikið tímabundið frá störfum á meðan yfirmenn könnuðu hvort hún hefði brotið í bága við samfélagsmiðlastefnu Washington Post.

Tíst Sonmez vöktu einnig mikla reiði reiði netverja, sem margir sendu henni líflátshótanir og birtu heimilisfang hennar. Yfir 200 blaðamenn Washington Post skrifuðu í kjölfarið undir yfirlýsingu þar sem viðbrögð ritstjóra hjá blaðinu voru harðlega gagnrýnd.

Í yfirlýsingu frá Tracy Grant, öðrum ritstjóranum sem fór með mál Sonmez, segir að hún hafi ekki gerst brotleg við umræddar samfélagsmiðlareglur starfsmanna. Þá kvaðst Grant sjá eftir því að hafa tjáð sig opinberlega um brottvikningu Sonmez.

Ekki kemur fram í frétt Guardian hvort Sonmez hafi hafið störf hjá blaðinu að nýju.

Kobe Bryant var handtekinn árið 2003 eftir að starfsmaður hótels í Colorado-ríki í Bandaríkjunum sakaði hann um að hafa nauðgað sér. Ákæra á hendur honum var látin niður falla tveimur árum síðar og samkomulag náðist við meintan þolanda.

Bryant sagði í yfirlýsingu um málið á sínum tíma að hann hefði talið að hann hefði fengið samþykki konunnar áður en þau stunduðu kynlíf. Hann væri hins vegar meðvitaður um að konan hefði ekki verið á sama máli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×