Körfubolti

Skipti í treyju númer 24 fyrir Kobe Bryant og skoraði 24 stig í sigri 76ers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joel Embiid í leiknum í nótt.
Joel Embiid í leiknum í nótt. Getty/Jesse D. Garrabrant

Joel Embiid fór fyrir sigri Philadelphia 76ers í sigri á Golden State Warriors í NBA-deildinni í nótt en hann spilaði leikinn fyrir átrúnaðargoðið sitt Kobe Bryant.

Joel Embiid fékk sérstakt leyfi hjá bæði NBA-deildinni og Philadelphia 76ers goðsögninni Bobby Jones til að taka niður treyju númer 24 úr röftunum og spila í henni í þessum leik.


Allir leikmenn Philadelphia 76ers voru í treyjum 24 og 8 í upphitun fyrir leikinn en Joel Embiid spilaði síðan í treyju 24 í sjálfum leiknum. Hann er vanalega númer 21.

Joel Embiid var búinn að missa af níu leikjum í röð vegna meiðsla en sneri nú aftur í liðið. Joel Embiid var síðan með 24 stig og 8 varnarfráköst í leiknum.


Joel Embiid segist að hann hafi ákveðið að verða körfuboltamaður þegar hann sem táningur í Afríku sá Kobe Bryant spila í lokaúrslitunum 2010. Hann hætti þá í blaki og náði að sannfæra föður sinn um að breyta um íþrótt. „Þetta var snúningspunktur í mínu lífi. Ég sá Kobe spila og eftir það þá vissi ég að ég vildi verða eins og hann,“ sagði Joel Embiid.

Nýliðinn Zion Williamson skoraði 14 stig í sínum fyrsta leik utan New Orleans og hjálpaði liði sínu New Orleans Pelicans að vinna 125-111 sigur á Cleveland Cavaliers. Jrue Holiday var stigahæstur hjá liðinu með 26 stig.


Khris Middleton skoraði 51 stig í fjarveru Giannis Antetokounmpo þegar Milwaukee Bucks vann 151-131 sigur á Washington Wizards. Antetokounmpo missti af leiknum vegna meiðsla á öxl en þetta var níundi sigurleikur Bucks liðsins í röð.

Devin Booker skoraði 20 af 32 stigum sínum í þriðja leikhluta og Deandre Ayton var með 31 stig þegar Phoenix Suns vann 133-104 útisigur á Dallas Mavericks. Luka Doncic skoraði 21 stig fyrir Dallas.

Úrslitin í NBA-deildinni í nótt:
Dallas Mavericks - Phoenix Suns 104-133
Memphis Grizzlies - Denver Nuggets 104-96
Miami Heat - Boston Celtics 101-109
Milwaukee Bucks - Washington Wizards 151-131
Cleveland Cavaliers - New Orleans Pelicans 111-125
Toronto Raptors - Atlanta Hawks 130-114
Charlotte Hornets - New York Knicks 97-92
Philadelphia 76ers - Golden State Warriors 115-104Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.