Körfubolti

Skipti í treyju númer 24 fyrir Kobe Bryant og skoraði 24 stig í sigri 76ers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joel Embiid í leiknum í nótt.
Joel Embiid í leiknum í nótt. Getty/Jesse D. Garrabrant

Joel Embiid fór fyrir sigri Philadelphia 76ers í sigri á Golden State Warriors í NBA-deildinni í nótt en hann spilaði leikinn fyrir átrúnaðargoðið sitt Kobe Bryant.

Joel Embiid fékk sérstakt leyfi hjá bæði NBA-deildinni og Philadelphia 76ers goðsögninni Bobby Jones til að taka niður treyju númer 24 úr röftunum og spila í henni í þessum leik.



Allir leikmenn Philadelphia 76ers voru í treyjum 24 og 8 í upphitun fyrir leikinn en Joel Embiid spilaði síðan í treyju 24 í sjálfum leiknum. Hann er vanalega númer 21.

Joel Embiid var búinn að missa af níu leikjum í röð vegna meiðsla en sneri nú aftur í liðið. Joel Embiid var síðan með 24 stig og 8 varnarfráköst í leiknum.



Joel Embiid segist að hann hafi ákveðið að verða körfuboltamaður þegar hann sem táningur í Afríku sá Kobe Bryant spila í lokaúrslitunum 2010. Hann hætti þá í blaki og náði að sannfæra föður sinn um að breyta um íþrótt. „Þetta var snúningspunktur í mínu lífi. Ég sá Kobe spila og eftir það þá vissi ég að ég vildi verða eins og hann,“ sagði Joel Embiid.

Nýliðinn Zion Williamson skoraði 14 stig í sínum fyrsta leik utan New Orleans og hjálpaði liði sínu New Orleans Pelicans að vinna 125-111 sigur á Cleveland Cavaliers. Jrue Holiday var stigahæstur hjá liðinu með 26 stig.



Khris Middleton skoraði 51 stig í fjarveru Giannis Antetokounmpo þegar Milwaukee Bucks vann 151-131 sigur á Washington Wizards. Antetokounmpo missti af leiknum vegna meiðsla á öxl en þetta var níundi sigurleikur Bucks liðsins í röð.

Devin Booker skoraði 20 af 32 stigum sínum í þriðja leikhluta og Deandre Ayton var með 31 stig þegar Phoenix Suns vann 133-104 útisigur á Dallas Mavericks. Luka Doncic skoraði 21 stig fyrir Dallas.

Úrslitin í NBA-deildinni í nótt:

Dallas Mavericks - Phoenix Suns 104-133

Memphis Grizzlies - Denver Nuggets 104-96

Miami Heat - Boston Celtics 101-109

Milwaukee Bucks - Washington Wizards 151-131

Cleveland Cavaliers - New Orleans Pelicans 111-125

Toronto Raptors - Atlanta Hawks 130-114

Charlotte Hornets - New York Knicks 97-92

Philadelphia 76ers - Golden State Warriors 115-104




Fleiri fréttir

Sjá meira


×