Erlent

Danskur ISIS-liði gómaður í Tyrklandi

Jacob El-Ali er einn af þúsundum erlendra vígamanna Íslamska ríkisins.
Jacob El-Ali er einn af þúsundum erlendra vígamanna Íslamska ríkisins. Vísir

Lögreglan í Tyrklandi hefur handsamað danskan ISIS-liða sem hefur verið eftirlýstur um árabil. Jacob El-Ali ferðaðist til Sýrlands og gekk til liðs við Íslamska ríkið en árið 2014 birti hann myndir af sér í Raqqa, sem var höfuðborga kalífadæmis ISIS. Á myndunum með honum voru höfuð að mönnum sem höfðu verið teknir af lífi.

Samkvæmt frétt Berlingske er El-Ali 31 árs gamall og var gómaður á landamærum Tyrklands og Sýrlands á fimmtudaginn. Búist er við því að hann verði framseldur til Danmerkur.

Lögmaður El-Ali staðfesti við Berlingske að búið væri að handtaka hann en meira vissi hún ekki. Hún sagðist ekki hafa hugmynd um hvenær mætti búast við því að hann yrði framseldur en hann hefur þegar verið dæmdur fyrir hryðjuverkastarfsemi í Danmörku.

Myndirnar sem El-Ali deildi árið 2014 birti hann eftir að ISIS-liðar tóku herstöð nærri Raqqa af sýrlenska hernum. Fjöldi hermanna voru myrtir og afskræmdir í kjölfarið. Búið er að staðfesta að 80 voru myrtir en rúmlega 200 er enn saknað.

Höfðum hermannanna var stillt upp á spjótum við eitt stærsta torg Raqqa og voru lík þeirra krossfest. Myndir El-Ali voru teknar á sama stað og á árum áður viðurkenndi hann í viðtali við Berlingske að um sýrlenska hermenn hafi verið að ræða.

Þá sagðist El-Ali hafa verið þvingaður til að ganga til liðs við Íslamska ríkið eftir að sveit Frjálsa lýðræðishers Sýrlands, FSA, sem hann á að hafa tilheyrt var sigruð af vígamönnum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.