Erlent

Tíðindalitlar kappræður Demókrata

Samúel Karl Ólason skrifar
Þó einungis sex frambjóðendur hafi verið á sviðinu í gær eru enn tólf manns í framboði. Alls tóku 28 Demókratar þátt.
Þó einungis sex frambjóðendur hafi verið á sviðinu í gær eru enn tólf manns í framboði. Alls tóku 28 Demókratar þátt. AP/Charlie Neibergall

Helstu forsetaframbjóðendur Demókrataflokksins tóku í nótt þátt í sjöundu og síðustu kappræðunum áður en forvalið hefst í Iowa í næsta mánuði. Þar ræddu frambjóðendur helstu málefni Bandaríkjanna um þessar mundir, Donald Trump, forseta, og margt annað. Deilan á milli Elizabeth Warren og Bernie Sanders, sem svo margir áttu von á, átti sér ekki stað og milljarðamæringur virtist ekki geta hætt að horfa beint í myndavélarnar.

Heilt yfir virðast fjölmiðlar ytra sammála um að kappræðurnar hafi að mestu verið tíðindalitlar.

Fjölmargir eru hættir í framboði og að þessu sinni voru einungis sex á sviði, samanborið við tuttugu yfir tvö kvöld, eins og í fyrstu kappræðunum.

Í stuttu máli fór mikill tími í að ræða utanríkismál Bandaríkjanna og þá sérstaklega Mið-Austurlönd. Þá var að sjálfsögðu miklum tíma varið í ræða Trump.

Warren hefur sakað Sanders um að segja við sig að kona gæti ekki unnið Trump. Hann þvertók fyrir það.

Hún stóð þó við orð sín og tíundaði að af þeim sex á sviðinu væru einungis tveir aðilar sem hefðu borið sigur úr bítum í öllum þeirra kosningum. Það væru konurnar á sviðinu, Warren og Amy Klobuchar. Samanlagt hefðu mennirnir á sviðinu tapað tíu kosningum og þar að auki væri hún sú eina sem hefði farið fram gegn sitjandi Repúblikana og unnið á síðustu 30 árum.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.