Erlent

Æðsti leiðtoginn leiðir bænir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ayatollah Khameini ávarpar fjölda árið 2015.
Ayatollah Khameini ávarpar fjölda árið 2015. Getty/Anadolu Agency

Æðsti leiðtogi Írans, Ayatollah Ali Khameini, mun leiða föstudagsbænir í höfuðborginni Teheran í dag, í fyrsta skipti í átta ár.

Almenningur í landinu hefur haft uppi hávær mótmæli eftir að herinn skaut niður úkraínska farþegaþotu nokkrum klukkustundum eftir að Íranir höfðu gert árásir á bandaríska herstöð í Írak í síðustu viku. Fyrir mistök var talið að þar væri á ferð bandarísk sprengjuflugvél eða flugskeyti og því var vélinni grandað. 176 fórust um borð í þotunni.

Íranir hafa jafnframt mótmælt bágu efnahagsástandi í landinu en Bandaríkin hafa sett viðskiptabann á ríkið síðustu misserin, eftir að stjórnvöld í Washington sögðu sig frá kjarnorkusamningum svokallaða. Forseti Írans, Hassan Rouhani, sagði á miðvikudag að mikilvægt sé að Íranir standi saman á þessum erfiðu tímum.

Hann kallaði aukinheldur eftir skýrum svörum frá Íransher um slysaskotið sem stjórnmálaskýrendum þykir tíðindum sæta. Óalgengt sé að æðstu embættismenn Írans gagnrýni störf hvers annars.

Síðast þegar Khameini leiddi föstudagsbænir var árið 2012, til að minnast þess að 33 ár voru þá liðin frá byltingunni í landinu þegar klerkastjórnin tók yfir.


Tengdar fréttir

Tveimur eldflaugum var skotið að flugvélinni

Hermenn í Íran skutu tveimur eldflaugum að úkraínskri farþegaþotu sem verið var að fljúga frá Teheran í síðustu viku. Eldflaugunum var skotið með tuttugu og þriggja sekúndna millibili og frá herstöð skammt frá flugvellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×