Erlent

Bresk stjórnvöld undirbúa Brexit-fögnuð

Kjartan Kjartansson skrifar
Innan við tvær vikur eru nú þar til Bretar ætla að segja skilið við Evrópusambandið.
Innan við tvær vikur eru nú þar til Bretar ætla að segja skilið við Evrópusambandið. Vísir/EPA

Ríkisstjórn Bretlands ætlar að standa fyrir viðburðum til að fagna útgöngu landsins úr Evrópusambandinu að kvöldi 31. janúars. Á sama tíma varar fjármálaráðherra Bretlands við því að sum bresk fyrirtæki gætu lent í erfiðleikum eftir Brexit vegna misræmis á milli breskra og evrópskra reglna.

Bretar ætla að ganga formlega úr Evrópusambandinu föstudaginn 31. janúar. Lítil breyting verður þó fyrst um sinn því reglur Evrópusambandsins munu ennþá gilda þar í ellefu mánuði til viðbótar á aðlögunartímabili sem samið var um.

Boris Johnson, forsætisráðherra, ætlar að ávarpa þjóðina um kvöldið eftir ríkisstjórnarfund sem verður haldinn á Norður-Englandi sem á að undirstrika áform ríkisstjórnarinnar um að styrkja svæðið efnahagslega.

Búið er að skipuleggja fögnuð vegna útgöngunnar. Stjórnarbygginar í Whitehall í London verða upplýstar og verður breska fánanum flaggað á öllum stöngum við Þingtorgið. Ríkisstjórnin ætlar ennfremur að framleiða sérstaka mynt til minningar um daginn.

Klukkuskífu verður svo varpað á Downingstræti 10, aðsetur forsætisráðherrans, og á klukkan að telja niður til klukkan 23:00 þegar útgangan á sér stað. Upphaflega vildi Johnson að Stóri Ben, klukkan í þinghúsinu í Westminster, hringdi sérstaklega við útgönguna en viðgerðir standa nú yfir á henni.

Sajid Javid, fjármálaráðherra Bretlands, sagði í viðtali við Financial Times í dag, að búast mætti við því að sumir angar bresks efnahagslífs ættu eftir að líða fyrir útgönguna þegar Bretar setja sér sínar eigin reglur sem verða ekki fullu samræmi við reglur Evrópusambandsins. Sambandið er stærsti viðskiptaaðili Bretlands.

Hann hét því að Bretlands segði skilið við innri markað Evrópusambandsins og tollabandalagið fyrir lok þessa árs.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.