Erlent

Rúmlega sjötíu drepnir í árás Húta á herbúðir í Jemen

Kjartan Kjartansson skrifar
Hadi forseti segir árásina sýna að Hútar hafi engan friðarvilja.
Hadi forseti segir árásina sýna að Hútar hafi engan friðarvilja. Vísir/EPA

Fleiri en sjötíu hermenn féllu og tugir særðust til viðbótar þegar hersveit Húta réðst á æfingarbúðir í borginni Marib í Jemen í gær. Forseti Jemens segir að herinn hafi verið settur í mestu viðbragðsstöðu og sé tilbúinn til átaka í kjölfar árásarinnar.

Hútar hafa ekki lýst yfir formlegri ábyrgð á árásinni sem er sögð hafa verið gerð með flugskeytum og drónum. Abd-Rabbu Mansour Hadi, forseti, fullyrti engu að síður að árásin sýndi að enginn friðarhugur væri í Hútum.

Reuters-fréttastofan hefur eftir heimildarmönnunum sínum að 73 hafi fallið í árásinni og tugir séu særðir. Hún hafi beint sérstaklega að mosku innan búðanna þegar fólk kom þar saman til bæna.

Borgarastríðinu í Jemen hefur verið lýst sem staðgöngustríði Írana og Sáda. Hútar eru sagðir njóta stuðnings íranskra stjórnvalda. Sádar leiddu bandalagsher sem greip inn í stríðið árið 2015 og endurreisti ríkisstjórn Hadi forseta. Hútar halda höfuðborginni Sanaa og er ríkisstjórn Hadi því með höfuðstöðvar í hafnarborginni Aden.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.