Innlent

Héldu að það væri komið steypiregn þegar flóðbylgjan skall á þakinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá Suðureyri í gærkvöldi.
Frá Suðureyri í gærkvöldi. Einar Ómarsson

Flóðbylgjan sem skall á land á Suðureyri á þriðjudagskvöld er ekki eins há og talið var í fyrstu. Útbúið verður tölvulíkan af flóðbylgjunni.Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar
 þar sem segir að starfsmenn hennar hafi unnið við mælingar síðustu daga á flóðbylgjunnar sem skall á land á Suðureyri.Flóðbylgjan myndaðist eftir að féll úr gilinu ofan við Norðureyri í Súgandafirði, um það bil beint á móti þéttbýlinu um kl. 23:05 og var háflóð um kl. 23:15 og stórstreymi.„Sjávarstaða við Suðureyri var því með hæsta móti þegar snjóflóðið féll í hlíðinni og ruddist í sjó fram. Flóðbylgjan sem ferðaðist yfir Súgandafjörð var því stærri en ella,“ segir á vef Veðurstofunnar.Sérfræðingar Veðurstofunnar hafa mælt upptakasvæði flóðsins með lasertækni svo hægt sé að áætla rúmmál snjóflóðsins. Eins verður útbúið tölvulíkan til að fá betri hugmynd um hæðina á fyrstu flóðbylgjunni sem skall á land.

Erfitt er að gera sér grein fyrir því núna hversu há hún var og kraftmikil. Þó er ljóst að flóðbylgjan var ekki eins há og talið var í fyrstu. Hún var þó nógu há til að fara yfir varnargarðinn og á landi var hnédjúpur, krapablandinn sjór, sumstaðar upp á mið læri.Víða kastaðist krapablandaður sjór yfir þök á nærliggjandi húsum og jafnvel upp á glugga á annarri hæð. Í einu húsanna hélt fólk að það væri komið steypiregn þegar sjórinn skall á þakinu og streymdi fram af þakkantinum.Meginflóðbylgjan sem gekk yfir varnargarðinn var þó miklu lægri, en á götum og við hús innan við varnargarðinn var krapinn hnédjúpur og sumstaðar upp á mið læri rétt eftir að bylgjan gekk yfir.Á bíl sem lagt var í um 7-8 metra fjarlægð frá varnargarðinum höfðu speglarnir, sem standa 130 cm yfir jörðu, lagst aftur og bíllinn flotið upp og færst um 2 metra. Öldubrotið sem kastaðist yfir húsin var það kraftmikið að það sá aðeins á nokkrum bílum.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.